Fréttir

Sund | 5. júlí 2008

Aldursflokkamet – ÍRB leiðir stigakeppnina

Öðrum mótshluta Bikarkeppninnar í sundi í Vatnaveröld í Reykjanesbæ er lokið.

Fín stemmning hefur verið í innisundlauginni í Vatnaveröld í Reykjanesbæ í morgun á 2. mótshluta í Bikarkeppninni í sundi.

Eitt aldursflokkamet féll þegar Kristinn Þórarinsson, 12 ára sundmaður í Fjölni, synti 200 metra baksund á tímanum 02:41.84. Gamla metið var frá 1992 en það setti Ómar Snævar Friðriksson úr SH á tímanum 02:48.70. Í hvert sinn sem Kristinn hefur stungið sér til sunds á Bikarmótinu hefur hann sett met.

Stigastaðan í lok 2. mótshluta er þannig:

1. deild kvenna 1. deild karla
1. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, ÍRB 10.365
2. Sundfélagið Ægir 9.736
3. Sunddeild KR 9.733
4. Sundfélag Hafnarfjarðar, SH 9.185
5. Sundfélag Akraness 8.762
6. Sundfélagið Óðinn 8.390
1. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, ÍRB 10.280
2. Sundfélag Hafnarfjarðar, SH 9.585
3. Sundfélagið Ægir 8.895
4. Sunddeild KR 8.853
5. Sundfélag Akraness, ÍA 7.759
6. Sundfélagið Óðinn 6.893
2. deild kvenna 2. deild karla
1. Sunddeild Fjölnis 6.250
2. Hamar, sunddeild 683

1. Sunddeild Fjölnis 5.736

Bikarmótið hefur gengið mjög vel, að sögn Steindórs Gunnarssonar, þjálfara ÍRB. Steindór segir að stór hluti sundmanna hafi verið að synda aðeins frá sínum bestu tímum en mjög flott sund hafi komið inn á milli, lágmörk á Evrópumeistaramót unglinga og aldursflokkamet, og keppnin verið jöfn.

“Sundmenn sem eru að fara að keppa á Ólympíuleikunum eru í þungum æfingum og eru því ekki að skila sínum bestu tímum. Bikarkeppnin er öðruvísi að því leytinu til að sundmennirnir eru kannski ekki að synda í sínum bestu greinum og því sér maður ekki hvað þeir eru að gera í sínum bestu greinum. Lið raða upp í margar greinar og þurfa því að hafa mannskap í þær allar þannig að toppfólkið er kannski ekki að synda sína uppáhaldsgrein,” segir Steindór og telur árangurinn á mótinu eðlilegan miðað við aðstæður.

Þriðji hluti hefst svo klukkan 16:00.