Brjáluð velgengni á Akranesleikum
ÍRB vann hvorki meira né minna en 126 verðlaun (43%) á Akranesleikunum, þar af 47 gull (46%) og fóru þar af leiðandi heim með bikarinn fyrir stigakeppni liða. Aðstæður voru mjög erfiðar um helgina fyrir bæði sundmenn, þjálfara og foreldra en veðurguðirnir buðu að þessu sinni upp á vind, rigningu og kulda. Þetta reyndi á þolrifin hjá sundmönnum og stuðningsaðilum en flestir tala þó um að helgin hafi verið skemmtileg og góð upplifun.
Við vorum með tæplega 100 sundmenn frá ÍRB sem syntu á mótinu og voru sundmenn úr öllum hópum frá Flugfiskum og upp úr sem kepptu. Það voru nokkur hundruð bestu tímar og líka mörg ný lágmörk á AMÍ sem er um miðjan júní. Flestir keppendur frá okkur gistu í skólanum sem er rétt hjá lauginni og við þökkum kærlega þeim sem hjálpuðu til með því að vera fararstjórar eða voru í að skipuleggja helgina.