Fréttir

Fróðlegur fyrirlestur kanadísks styrktarþjálfara hjá ÍSÍ
Sund | 22. apríl 2013

Fróðlegur fyrirlestur kanadísks styrktarþjálfara hjá ÍSÍ

 

Síðastliðinn sunnudag bauð ÍSÍ til fundar með gestafyrirlesaranum Julie Gowans sem er styrktarþjálfari í afreksíþróttum í Kanada. Hún var styrktarþjálfari kanadíska Ólympíuliðsins og með nokkrum gullverðlaunahöfum  í London 2012.  Julie einbeitir sér aðallega að þjálfun sundmanna bæði fatlaðra og ófatlaðra, hjólreiðamanna og skíðagöngumanna.  Þeir Anthony yfirþjálfari og Ingi Gunnar styrktarþjálfari fóru á fundinn og þótti hann mjög fræðandi.

 

Julie ræddi fyrst um hve streituvaldandi þjálfarastarfið getur verið þar sem ætlast er til að þjálfarinn  nái að hafa jafnvægi á öllum hlutum og hve mikilvægt það er að þjálfarar hafi stuðningsaðila til þess að ná því besta fram í íþróttamönnunum. Hér í ÍRB erum við með Anthony yfirþjálfara og með honum vinna Ingi Gunnar styrktarþjálfari, Þórunn jógakennari, Carla nuddari,  Falur sjúkraþjálfari og frábært lið sundþjálfara.

 

Lykilatriði fundarins voru:

 

1)     Styrktarþjálfun er afar mikilvæg til  þess að framfarir verði hjá íþróttafólki en einnig til þess að fyrirbyggja meiðsli t.d. vegna þess ójafnvægis sem skapast með sundþjálfun.

 

2)     Áhersla á að vera á virka enduruppbyggingu og hvíld, sérstaklega á þungum tímabilum, reglulegt nudd, hvíldartíma bæði svefn og slökun og svo á góða næringu.

 

3)     Mælt er með reglulegri jóga og pilatesþjálfun til þess að styrkja liðamót og auka  liðleika og minnka líkur á meiðslum.

 

4)     Viðeigandi skipulagning og skráning þarf að eiga sér stað, einnig hjá íþróttafólkinu sjálfu. Æskilegast er að það skrái niður og skili vikulega æfingadagbók. Þetta gerir  íþróttafólkinu kleift að skilja að hverju það þurfi að einbeita sér og er mikilvægt fyrir þjálfarann til þess að koma því frá A til B.

 

5)     Íþróttafólkið þarf að leggja sig fram og það geta ekki allar æfingar verið skemmtilegar en þær ættu alltaf að hafa ákveðinn tilgang. Íþróttafólkið þarf að vita um hvað æfingin snýst og gefa sig 100% í æfinguna ef það vill sjá árangur-að mæta er ekki nóg.

 

6)     Markmiðið er að íþróttafólkið verði sterkt en ekki endilega með risavaxna vöðva og að það geti notað vöðvana í íþróttinni sinni til þess að ná betri árangri.

 

7)     Íþróttafólkið þarf að vera í góðu formi með því að þjálfa nóg og með því að nota góða tækni til þess að forðast meiðsli og æfingum og í keppni.

 

8)     Regluleg  skoðun hjá sjúkraþjálfara er mikilvæg til þess að fyrirbyggja meiðsli.

 

9)     Íþróttafólk sem vill ná góðum árangri þarf að sýna aga varðandi skráningu í æfingabækur og  í vinnu sinni á æfingum-hennar orð voru: „Þetta er ekki leikskóli- þú annað hvort gerir þetta rétt eða sleppir því“.

 

Það var afar gagnlegt fyrir bæði Anthony og Inga að ræða um þjálfunarskipulagið hjá sér og þótti þeim ánægjulegt að sjá að áherslurnar hjá ÍRB eru í samræmi við þessi lykilatriði sem eru talin mikilvæg í íþróttaþjálfun á alþjóðlegum vettvangi.