Fréttir

Sund | 20. nóvember 2006

Glæsileg uppskeruhátíð SSÍ

 

Mikið var um dýrðir á Broadway í gærkvöldi þegar sundhreyfingin á Íslandi kom saman og gerði upp síðast liðið sundár.  Hátíðin var haldin við lok Íslandsmeistarmótsins í 25 metra laug. 

Dagskráin var viðamikil, hún hófst með setningu og ávarpi Harðar J. Oddfríðarsonar formanns SSÍ.  Í máli hans kom fram að sundið á Íslandi er á uppleið, margt mjög jákvætt að gerast og framfarir nokkrar.  Hann kynnti einnig styrktaraðila SSÍ og þakkaði þeim sérstaklega.  Hörður sagði frá því að stjórn SSÍ hefði, í kjölfar samnings við Glitni, samþykkt sérstaka forvarnar- og fræðsluáætlun sem félögum verður boðið upp án endurgjalds.  Þannig væri sundhreyfingin í fararbroddi í þeim málum og með þessu væri öllum sundfélögum og deildum gert kleift að framfylgja áætlunum um Fyrirmyndarfélög ÍSÍ til hins ítrasta.

Á meðan gestir gæddu sér á hinu rómaða jólahlaðborði á Broadway var nokkrum sinnum dregið í aðgöngumiðahappdrætti.  Þar voru glæsilegir vinningar frá ýmsum velunnurum SSÍ, en hápunkturinn var þegar dregið var út gjafabréf fyrir tvo á evrópuleiðum Icelandair.  Snæfríður Jóhannsdóttir úr Sundfélaginu Ægi hafði heppnina með sér og er á leið í utanlandsferð.  Félagar hennar í sundinu stóðu í röðum til að bjóða henni samfylgd.

Unglingþjálfari SSÍ árið 2006 var valin Ragnheiður Runólfsdóttir, sundkonan knáa úr ÍA.  Afreksþjálfari SSÍ árið 2006 var svo valin Steindór Gunnarsson aðalþjálfari ÍRB, en Steindór er margreyndur bæði sem félagsþjálfari og úr landsliðsverkefnum.  Þau fengu viðurkenningu frá Speedo og Glitni við þetta tækifæri.

Dómari ársins 2006 er Kristjana Eyþórsdóttur úr Sundfélaginu Ægi.  Í umsögn Dómaranefndar SSÍ um Kristjönu kom fram að hún væri dugleg, samviskusöm og vinnusöm í þeim verkefnum sem henni væru falin við dómgæslu á sundmótum.  Hún fékk einnig viðurkenningu frá Speedo og Glitni.

NMU hópurinn sem fer til Tampere í Finnlandi var lesinn upp, en þau eru:  Berglind Hlín Aðalsteinsdóttir úr Sunddeild Ármanns, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Guðni Emilsson úr ÍRB, Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH, Hrefna Leifsdóttir úr KR, Olga Sigurðardóttir úr Ægi og Rakel Gunnlaugsdóttir úr ÍA.

Næst voru þau fjögur sem fara á EM 25 í Finnlandi nú í desember, þe Anja Ríkey Jakobsdóttir og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir úr Sundfélaginu Ægi, Ragnhildur Ragnarsdóttir úr KR og Örn Arnarson SH kölluð upp til að taka við sérstökum ferðastyrk frá Glitni. 

Þrjú til viðbótar hafa náð lágmörkum á Evrópumeistaramótið, en eiga ekki heimangengt vegna prófa í skólum, en það eru þau Erla Dögg Haraldsdóttir úr ÍRB og Jakob Jóhann Sveinsson og Kólbrún Ýr Kristjánsdóttir úr Sundfélaginu Ægi.

Þá bað sundhópurinn úr ÍA um orðið og kom upp til að hylla þjálfarann sinn, Ragnheiði Runólfsdóttur. en hún varð fertug í gær sunnudag. 

Ragnheiður var beðin um að staldra við á sviðinu og henni til fulltingis var kallaður til Eðvarð Eðvarðsson og saman lýstu þau tískusýningu kvöldsins - þegar sundfólkið úr ÍRB kom fram í landsliðsgöllum síðustu áratuga.

Hvatningarbikar SSÍ 2006, féll Sundfélaginu Óðni í skaut, en eitt af meginmarkmiðum SSÍ er að fjölga félögum sem bjóða upp á styrka umgjörð fyrir sundþjálfun og uppeldi framtíðarsundfólks.  Sundfélagið Óðinn hefur verið mjög á uppleið á árinu 2006, á sundmót hafa komið sundfólk í miklum framförum auk þess sem barna- og unglingastarf félagsins er með miklum ágætum. 

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ, ávarpaði hátíðargesti og lýsti þeirri upplífun sinni að koma meðal sundfólks á öllum aldri á hátíð sem þessari.  Hann kom víða við í ávarpi sínu og sagði meðal annars ánægjulegt að sjá hvernig hópurinn næði vel saman og myndaði eina heild, sérstaklega þegar það væri haft í huga að sund væri fyrst og fremst einstaklingsíþrótt.

Undir lok dagskrár var valið efnilegasta sundfólkið úr hópi 13 ára til 15 ára sundfólks og Sundkona ársins og Sundmaður ársins.  Efnilegasta sundkonan var valin Hrefna Leifsdóttir úr Sunddeild KR og efnilegasti sundmaðurinn var Hrafn Traustason úr ÍA.

Sundkona ársins er Ragnheiður Ragnarsdóttir úr Sunddeild KR og Sundmaður ársins er Örn Arnarson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar (SH).  Þau fengu öll veglega viðurkenningu frá Speedo, fallegt og vandað úr.

Eftir að formlegri dagskrá lauk var stiginn dans og var ekki séð að sundfólkið væri þreytt eftir Íslandsmeistaramótið - ótrúleg orka, gleði og skemmtun geislaði af hópnum sem fyllti dansgólfið á Broadway.