Fréttir

Heimsklassareynsla hjá sundmönnum ÍRB á Euromeet í Luxemborg
Sund | 12. febrúar 2014

Heimsklassareynsla hjá sundmönnum ÍRB á Euromeet í Luxemborg

Dagana 6.-10. febrúar ferðaðist hópur 19 sundmanna ásamt þjálfara og tveimur fararstjórum til Luxemborgar til þess að taka þátt í Euromeet sundmótinu sem er eitt sterkasta mótið á fyrri hluta sundtímabilsins í Evrópu. Í ár var keppnin á mótinu afar hörð enda margir heimsklassasundmenn að keppa þar eins og til dæmis Katinka Hosszu frá Ungverjalandi og Paul Biederman frá Þýskalandi. Sundfólkið okkar fékk tækifæri til þess að spjalla við þessa frægu sundmenn, fá áritanir frá þeim á sundhettur, tóku myndir af sér með þeim og skiptu jafnvel við þá á sundhettum. 

   

Þeir sundmenn sem fóru á mótið þurftu að ná erfiðum lágmörkum til þess að komast með á mótið en þess má geta að lágmörkin voru umtalsvert erfiðari en á Íslandsmót í opnum flokki. Mótið var haldið í hinni glæsilegu laug du Couqe í Luxemborg þar sem aðstaðan og aðbúnaður var til fyrirmyndar. Í ár var metþátttaka á mótinu en keppendur voru rétt tæplega 800 og var kynjaskipting keppenda mjög jöfn. Verðlaunafé voru tugir þúsunda evra og voru bestu sundmennirnir í fínu formi. Sumir þeirra voru nálægt heimsmetum og á tímum sem eru með þeim bestu á árinu, jafnvel vel yfir 900 FINA stig (heimsmet er 1000 FINA stig).

ÍRB var með góðan árangur á mótinu. Mjög margir bestu tímar hjá liðinu.

Bestum árangri náði Þröstur Bjarnason í 1500 m skriðsundi. Hann var sjötti í sínum aldursflokki og 9. í opnum flokki með 720 FINA stig og náði hann að bæta íslenska piltametið sem Ólympíufarinn Anton Sveinn Mckee úr Ægi átti. Hann bætti tímann úr 16:19 í 16:14 og náði næstum því að bæta 800 m metið í leiðinni. Þessi tími er sá besti í sögu ÍRB en eldra metið átti Sindri Þór Jakobsson sem æfir nú í Noregi. Með þessum tíma náði Þröstur lágmarkinu með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramót unglinga í sumar og er þetta fyrsta Íslandsmetið í einstaklingsgrein sem hann nær.

  

Þröstur var ekki eini sundmaður ÍRB sem náði í landslið á mótinu. Íris Ósk Hilmarsdóttir náði einnig lágmarki fyrir Evrópumeistaramót unglina í 200m baksundi með 656 FINA stigum. Tíminn nægði henni til þess að keppa í B úrslitum og var hún sú eina í hópnum sem náði inn í úrslit þar sem hún endaði sjöunda í sínum aldursflokki. Sunneva Dögg Friðriksdóttir var þriðji sundmaðurinn til þess að ná á Evrópumeistaramót unglinga með nýju stúlkna ÍRB meti í 800 m skriðsundi  en hún var aðeins 0.01 sek frá opna ÍRB metinu með 686 FINA stig og varð hún níunda í aldursflokknum. Sylwia Sienkiewicz var aðeins 0.5 sek frá lágmarkinu á Evrópumeistaramótið en hefur þar til í apríl til þess að ná því.

 

Af yngri sundmönnum átti Eydís Ósk Kolbeinsdóttir frábært 800 m skriðsund og vann hún silfur en var nálægt því að ná gulli og Íslandsmeti í telpnaflokki. Eydís var vel undir lágmarkinu fyrir Norðurlandameistaramót Æskunnar. Hin unga Stefanía Sigurþórsdóttir fylgdi svo á eftir og náði sínu fyrsta landsliðslágmarki í sömu grein og Eydís og endaði hún fjórða í aldursflokknum. Gunnhildur Björg Baldursdóttir náði líka sínu fyrsta landsliðslágmarki á sama mót í 200 m flugsundi og varð hún fjórða í sínum aldursflokki.

  

Á mótinu voru meira en 50 lið frá meira en 20 löndum. Langsterkasta liðið var þýska landsliðið með marga góða sundmenn. Aðeins 20 lið fengu að keppa í 4x50 blönduðu boðsundi.  Lið ÍRB þau Íris Ósk Hilmarsdóttir, Kristófer Sigurðsson, Baldvin Sigmarsson og Sylwia Sienkiewicz áttu tíma sem var nógu góður til þess að fá að vera á meðal þessara 20 liða og enduðu þau í 18 sæti með nýju ÍRB meti í opnum flokki. Eitt ÍRB met til viðbótar var sett á mótinu en hún Íris Ósk Hilmarsdóttir sem sló bæði kvenna og stúlknametið í 50 m skriðsundi og varð hún þar með hraðasta sundkona ÍRB í 50 skriðsundi frá upphafi, með betri tíma en Ólympíu bringusundskonurnar Erla Dögg Haraldsdóttir og Íris Edda Heimisdóttir.

Ferðin var frábær í alla staði, var mjög vel skipulögð. Keppnin var af hæfilegum styrkleika fyrir bestu sundmenn okkar þar sem samkeppnin var mun meiri en hægt er að fá á Íslandi. Það var erfitt en þó möguleiki á að ná verðlaunum og ná í úrslit og þarna gafst dýrmætt tækifæri til þess að fylgjast með þeim bestu í heiminum. Bestu þakkir fá Baldur Sæmundsson og Guðrún Jóna Árnadóttir fyrir framúrskarandi skipulagningu og góða umhyggju fyrir sundmönnunum alla ferðina. ÍRB heldur áfram að bjóða upp á spennandi tækifæri fyrir liðsmenn sína.

Lið ÍRB á Euromeet:

Aleksandra Wasilewska
Aníka Mjöll Júlíusdóttir
Baldvin Sigmarsson
Birta María Falsdóttir
Björgvin Theodór Hilmarsson
Eydís Ósk Kolbeinnsdóttir
Guðrún Eir Jónsdóttir
Gunnhildur Björg Baldursdóttir
Íris Ósk Hilmarsdóttir
Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir
Karen Mist Arngeirsdóttir
Klaudia Malesa
Kristófer Sigurðsson
Rakel Ýr Ottósdóttir
Stefanía Sigurþórsdóttir
Sunneva Dögg Friðriksdóttir
Svanfríður Árný Steingrímsdóttir
Sylwia Sienkiewicz
Þröstur Bjarnason
 

Metalisti og úrslit fylgja hér á eftir:

Úrslit-einstaklingar

Úrslit-boðsund

Met sem sett voru á Euromeet

Kristófer Sigurðsson                  400 Skrið (50m)                Karlar-Keflavík
Þröstur Bjarnason                      800 Skrið (50m)                Karlar-ÍRB
Þröstur Bjarnason                      800 Skrið (50m)                Karlar-Keflavík
Þröstur Bjarnason                      1500 Skrið (50m)              Karlar-ÍRB
Þröstur Bjarnason                      1500 Skrið (50m)              Karlar-Keflavík
Íris Ósk Hilmarsdóttir                50 Skrið (50m)                  Konur-ÍRB
Íris Ósk Hilmarsdóttir                50 Skrið (50m)                  Konur-Keflavík
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      100 Skrið (50m)                Konur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      200 Skrið (50m)                Konur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      400 Skrið (50m)                Konur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      800 Skrið (50m)                Konur-Njarðvik
Þröstur Bjarnason                     800 Skrið (50m)                Piltar-ÍRB
Þröstur Bjarnason                     800 Skrið (50m)                Piltar-Keflavík
Þröstur Bjarnason                     1500 Skrið (50m)              Piltar-Íslands
Þröstur Bjarnason                     1500 Skrið (50m)              Piltar-ÍRB
Þröstur Bjarnason                     1500 Skrið (50m)              Piltar-Keflavík
Íris Ósk Hilmarsdóttir                50 Skrið (50m)                 Stúlkur-ÍRB
Íris Ósk Hilmarsdóttir                50 Skrið (50m)                 Stúlkur-Keflavík
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      100 Skrið (50m)               Stúlkur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      200 Skrið (50m)               Stúlkur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      400 Skrið (50m)               Stúlkur-ÍRB
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      400 Skrið (50m)               Stúlkur-Njarðvik
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      800 Skrið (50m)               Stúlkur-ÍRB
Sunneva Dögg Friðríksdóttir      800 Skrið (50m)               Stúlkur-Njarðvik
Gunnhildur Björg Baldursdóttir   200 Flug (50m)                 Telpur-Njarðvík

Íris Ósk Hilmarsdóttir                4x50 Fjór (50m)               Opna-ÍRB
Kristófer Sigurðsson
Baldvin Sigmarsson
Sylwia Sienkiewicz