Fréttir

Ótrúleg upplifun á EYOF
Sund | 19. júlí 2013

Ótrúleg upplifun á EYOF

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) var í ár haldin í Utrecht í Hollandi. Þrír sundmenn frá ÍRB þau Baldvin Sigmarsson, Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Svanfríður Steingrímsdótttir kepptu á hátíðinni ásamt Arnóri Stefánssyni úr SH og Bryndísi Bolladóttur úr Óðni.

Ólymoíuhátiðin er líklega stærstu leikar sem í boði eru fyrir ungt fólk með stórri opnunarhátíð og lokahátíð, mörgum keppnisgreinum, keppendur gista í nokkurskonar ólympíuþorpi og gríðarlega hörð keppni er til staðar. Þetta er ekki ósvipað og sjá má á Ólympíuleikunum. Í sundinu er mjög mikil samkeppni og sterkir keppendur, þarna hafa margir sem unnið hafa til verðlauna á Ólympíuleikum sýnt við hverju megi búast af þeim í framtíðinni. Nýjasta dæmið er Ruta Meilutyte sundundrið sem er frá Litháen en æfir í Bretlandi. Ruta vann gull í 100 m bringusundi á EYOF árið 2011 á 1:07 og keppti svo á Ólympíuleikunum í London 2012 og vann þar gull á 1:05. Margir þeirra sem voru sigursælastir á EYOF 2011 héldu áfram á sigurbrautinni og voru áberandi á EMU í Póllandi um daginn þegar Íris Ósk og Ólöf Edda kepptu þar um daginn (sjá grein neðar á síðunni).

 

Sunneva Dögg keppti í 400 og 800 m skriðsundi. Besta sundið hennar var 400 skrið það sem hún bætti tíma sinn um 5 sek og bætti með því opna Njarðvíkurmetið í kvennaflokki og var aðeins nokkrum sekúndubrotum frá ÍRB metinu. Hún færist nálægt íslenska telpnametinu. Í 800 skrið bætti hún sig um 4 sek og setti líka nýtt Njarðvíkurmet í kvennaflokki. Í 400 skrið náði hún einnig að bæta Njarðvíkurmetið í 200 m skriðsundi með með millitíma sínum.  

 

Baldvin bætti sig um 4 sek í 400 fjór á fyrsta degi mótsins og bætti með því opna Keflavíkurmetið í karlaflokki og nálgast hann piltamet ÍRB sem Sindri Þór Jakobsson sem syndir nú í Noregi á. Honum gekk einnig vel á síðasta deginum og bætti hann sig um 2 sek í 200 fjór og metið sem hann átti í leiðinni. Baldvin keppti einnig í 200 flug og var hann þar á nánast sama tíma og hann átti.

 

Svanfriður var svo óheppin að fá kvef þegar hún var nýkomin á hátiðina. Hún lenti í vandræðum í 200 m bringusundi og missti andann en þó hún sýndi mikinn keppnisanda og kláraði sundið þrátt fyrir að hafa þurft að stoppa var tíminn ógildur. Daginn eftir synti hún í 100 bringu og þó hún væri enn veik náði hún að vera innan við hálfri sek frá besta tíma sínum. Vel gert Svanfríður þú sýndir hvað þú ert hörð af þér.  

Bryndís úr Óðni náði að komast tvisvar í undanúrslit og var rétt frá bestu tímum sínum, Arnór úr SH synti í þremur sundum og var líka rétt frá sínum bestu tímum í þeim en náði þeim góða árangri að vera í  14. sæti í 1500 skrið.

 

Vel gert hjá ykkur öllum, þetta hefur verið mikil upplifun. Við vonum að þið hafið öðlast mikilvæga reynslu sem þið getið nýtt í keppnum framtíðarinnar.