Fréttir

Sundsamfélagið í ÍRB
Sund | 4. febrúar 2013

Sundsamfélagið í ÍRB

 

Sundsamfélagið í ÍRB. Hvernig mynd dregur þú upp? Verum viss um að við segjum rétt frá þegar við tölum um sunddeildirnar okkar!

Mig langar til þess að nota tækifærið, gefa ykkur upplýsingar og biðja um að þið veltið aðeins fyrir ykkur því sem ég hef að segja með það í huga hvernig mynd við drögum upp af sundsamfélaginu hér þegar við ræðum það við aðra.

Það er augljóst að árangur síðust ára hefur vakið athygli. Til dæmis hef ég heyrt foreldra úr öðrum liðum orð á því að framfarir liðsins væru einstakar. Á hinn bóginn er athyglisvert að heyra sögur um það að sundmönnum okkar séu keyrðir út á æfingum, æfi 12 sinnum í viku, ekkert skemmtilegt sé gert til skemmtunar og allir hætti áður en þeir ná 15 ára aldri.

Þó við vitum vel að sannleikurinn sé fjarri þessu þá er það svo að sögurnar byrja alltaf einhversstaðar. Til dæmis er það þannig að þrisvar á ári taka elstu sundmennirnir 3 aukaæfingar á viku, þá viku eru þau elstu að synda allt að 12 æfingar á einni viku. Líklega hefur þessi saga hafist þannig að sundmaður hefur sagt við einhvern að hann hafi farið á 12 æfingar í vikunni og það er svo túlkað sem 12 æfingar í hverri viku.

Horfum á staðreyndir! Ekki kjaftasögur.

ÍRB er aldursflokkafélag

Reykjanesbær er ekki stór staður, hér búa um 10-12 þúsund manns. Menntatækifæri eftir framhaldsskóla eru ekki fjölbreytt og afleiðingin er sú að eftir útskrift í FS þarf að flytja annað til þess að ná í meiri menntun, annað hvort á Íslandi eða í öðrum löndum. Sömuleiðis ákveða sumir krakkar að ganga í framhaldsskóla í Reykjavík við 14/15 ára aldur og geta því ekki æft með okkur lengur. Það er því alveg ljóst að sundmenn eldri en 19 ára og æfa hér hjá okkur í Reykjanesbæ verða aldrei mjög stór hópur í ÍRB.

Árangur!

ÍRB er á skriði, við unnum AMÍ fyrir tveimur árum með naumum mun og á síðasta ári með miklum yfirburðum.

Í nóvember var 42% þeirra sem valdir voru í unglingalandslið úr ÍRB.

ÍRB á mesta fjölda einstaklinga sem sett hafa íslensk aldursflokkamet á síðustu þremur árum – 9 einstaklingar, ekki þar með taldir sundmenn sem synda erlendis og keppa í opnum flokki, hafa sett Íslandsmet síðan í ágúst 2010.

ÍRB á 60,5% af öllum Íslandsmetum aldursflokka í boðsundi, langflest þeirra voru sett á allra síðustu árum.

Landslið


Þegar ég hóf störf hjá félaginu þjálfaði ég 14 sundmenn að staðaldri en 18 þegar hópurinn var fullur. Í dag eru yfirleitt meira en 25 sundmenn hjá mér í lauginni og stundum allt að 33 þegar allir mæta. Plássin í öllum hópum á öllum stigum eru að fyllast hjá okkur hér í ÍRB.

 

 

 

Staðan hjá okkur í afrekshópunum er svona í dag:

3 sundmenn verða 18 ára á árinu – allir hafa náð landsliðslágmörkum.
5 sundmenn verða 17 ára á árinu – 4 hafa náð landsliðslágmörkum.
4 sundmenn verða 16 ára á árinu – 4 hafa náð landsliðslágmörkum.
6 sundmenn verða 15 ára á árinu –  2 hafa náð landsliðslágmörkum.
9 sundmenn verða 14 ára á árinu – 1 hefur náð landsliðslágmörkum.

Sundmenn á skólastyrk

Á síðustu árum hefur ÍRB átt 5 sundmenn sem æfa á skólastyrk í Bandaríkjunum, nú síðast Jónu Helenu sem fór út síðasta sumar. Þrír elstu sundmennirnir eru nú þegar byrjaðir í ferlinu og þó enn séu tvö ár í útskrift hafa skólar gert tilboð um samning. Skólastyrkir geta verið um 150.000 dollarar (18-19 milljón kr.).

 

 

 

Skemmtun og fjör

Við erum með skemmtilegt æfingakerfi hér í ÍRB. Þjálfararnir okkar sex eru frábærir og vita vel hvernig á að gera æfingarnar skemmtilegar þannig að þær skili líka árangri í sundinu. Ég veit að krökkunum finnst gaman á flestum æfingunum hjá mér. Hvers vegna veit ég það? Vegna þess að ég spyr þau. Allar æfingar geta samt ekki verið ótrúlega skemmtilegar, það er ekki hægt að hafa fullt af boðsundi og leikjum á hverri æfingu. Málið er að finna áskorun á hverri æfingu. Það er bráðnauðsynlegt að skemmtun sé í jafnvægi við vinnu og að þjálfararnir viti hvenær rétti tíminn er til þess að slaka á og hvenær á að einbeita sér. Ferðin okkar til Danmerkur síðasta sumar var mjög gott dæmi um þetta. Þar skiptust á vinna og skemmtun í góðu jafnvægi. Næstum hver einasti sundmaður sem valinn hefur verið sundmaður mánaðarins hefur nefnt þessa ferð sem eina bestu upplifun þeirra tengda sundi. Myndband um ferðina: http://www.youtube.com/watch?v=NPDJaTv7Wf0&feature=youtu.be

Tímabil og æfingaáætlun

Hver vika er ólík í sundi. Við erum með tæknivikur þar sem sundmenn synda fáa km og það eru líka erfiðar vikur þar sem syntir eru margir km. Það er nákvæmt skipulag á bak við æfingaáætlunina hjá okkur í ÍRB. Á móti hverri 12 æfinga viku sem barnið þitt þarf að mæta á er líka vika sem æfingarnar eru bara 6 til dæmis fyrir mót eða um jólin.

Til dæmis er athyglisvert að skoða nokkrar staðreyndir um sundmanninn sem synti flesta km í liðinu okkar. Það var Þröstur Bjarnason sem er 15 ára. Á fyrstu 24 vikunum á tímabilinu synti hann 5746 m sem er minna en 100 m á hverjum 2 mínútum. Á sumum æfingum syndir hann um 8 km og á jafn mörgum 4 km á 2 tímum. Sumar æfingar snúast um þol en aðrar um gæði. Það er meðaltalið sem skiptir máli. Þröstur er með þjálfunaráherslu á löng sund og er þess vegna með hærra meðaltal en sumir eldri sundmenn sem æfa þó oftar en hann. Æfingarnar eru sniðnar að mismunandi þörfum hvers og eins. Það gera ekki allir það sama.

Líkamleg heilsa

Við hjá ÍRB hugsum mikið um líkamlega heilsu. Við mælum með vikulegu nuddi fyrir sundmenn og höfum útvegað foreldrum leiðbeiningar með myndbandi sem sýnir hvernig nudda má sundmenn heima. Einnig er hægt að kaupa þessa þjónustu af nuddstofu. Hjá eldri sundmönnum gerum við Theraband-æfingar (æfingar með teygju) á hverri æfingu til þess að fyrirbyggja meiðsli einnig höfum við aðgang að frábærum sjúkraþjálfara til ráðgjafar. Á öllum æfingum í tækjasal erum við með einkaþjálfara sem sér um að sundmenn noti rétta tækni og stöðu við æfingarnar. Einu sinni í viku fara bestu hóparnir okkar í jóga hjá jógakennara til þess að efla hug, líkama og sál. Við erum með reglulega fundi og sendum út upplýsingar varðandi mikilvægi þess fyrir íþróttafólk að matarræði sé gott, hvíld og svefn sé nægur ásamt því að leyfa líkamanum að jafna sig. Ef ekki er hugað vel að þessum þáttum þá verða sundmenn veikir eða meiddir með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sundárangurinn. Líkamleg heilsa er lykilatriði.

Efling hugans

Í elstu hópunum hjá okkur í ÍRB skrá sundmenn reglulega niður í sérstakar bækur hvernig þeim líður og halda utan um það hvernig gengur. Þau gera mikið af æfingum í því að setja sér mismunandi gerðir markmiða, gera áætlun 5 ár fram í tímann og er kennt að gera skipulag fyrir vikuna svo þau geti haldið sem bestu jafnvægi í því sem þau taka sér fyrir hendur. Krakkarnir sem æfa í efsta hópnum okkar fara í jóga sem er ekki aðeins þáttur í því að halda góðri líkamlegri heilsu heldur kennir einnig slökunartækni. Ýmis hvatningarkerfi og yfirlit yfir árangur eru fengin sundmönnum í hendur til þess auðvelda þeim að fylgjast framförum sínum. Fyrir stuttu fengum við mikið lof frá einum af virtustu íþróttasálfræðingum Íslands sem hældi okkur mikið fyrir það sem við gerum fyrir sundmenn á þessu sviði.

Mætingar

Ég hef oft mælt með bókinni „Swimming for Parents“ eftir Gary Barclay. Hann er leiðandi í sundmenntun í heiminum og er þessi bók skrifuð með foreldra í huga en ekki þjálfara. Á síðustu árum hef ég veitt ýmsar upplýsingar til sundmanna, foreldra þeirra og annarra í félaginu um það hvað er nauðsynlegt til þess að ná árangri í sundi. Þessar upplýsingar eru ekki aðeins mínar hugsanir og skoðanir heldur einnig skoðanir og reynsla árangursríkra þjálfara og íþróttafræðinga sem eru notaðar í sundþjálfun um allan heim.

 

Tilvitnanir úr bókinni góðu fyrir foreldra

„Yngri sundmenn sem farnir eru að keppa, aldur 10-13 ára (aldur sundmanna í Framtíðarhópnum hjá Edda). 10 ára gamlir krakkar ættu að minnsta kosti að æfa 3 sinnum í viku en margir æfa 4-5 sinnum. Sterkir 11 ára krakkar og 12 ára ættu að æfa 5-7 sinnum á viku. Sterkir 13 ára ættu að æfa 5-8 sinnum í viku“

„Keppnisstig, aldur 13-18 ára (allir sundmenn í hópunum mínum). Þegar börn verða eldri eykst skuldbindingin sem nauðsynleg er til þess að ná árangri. Unglingar sem eru áhugasamir æfa oftast 7-10 sinnum á viku. Þessu til viðbótar eru svo þrekæfingar á landi.“

Á meðfylgjandi mynd er hægt að sjá meðalfjölda æfinga allra sundmanna í þremur efstu hópunum fyrstu 24 vikur tímabilsins 2012-2013 þ.e. á fyrri hluta núverandi tímabils.

Gulur litur í mætingu er sami fjöldi æfinga á viku og helmingurinn af aldri sundmanns + 1/2 æfing (á hálfum mánuði sami fjöldi æfinga og aldur sundmanns + 1 æfing). Við teljum að mæting sem þessi sé mjög góð og er hún til jafns við það sem rætt er í bók Gary og mælt er með af mörgum topp sundsérfræðingum.

Blár litur í mætingu er sami fjöldi æfinga á viku og hálfur aldur sundmanns og er það sem ætlast er til í mætingu á viku.

Svartur litur í mætingu er sami fjöldi æfinga á viku og hálfur aldur sundmanns -1 æfing á viku og er ekki talið nægilegur fjöldi æfinga til þess að ná árangri til lengri tíma litið.

Rauður litur í mætingu er ekki nægileg mæting til þess að ná marktækum árangri.

Sund er íþrótt sem krefst þess að þegar sundmenn eldast þurfa þeir stundum að gera tvær æfingar á einum degi, það er kallað að taka tvöfaldan dag. Ef sundmaður æfir að meðaltali 7 sinnum í viku þýðir það að hann tekur einn tvöfaldan dag í viku. Ef meðaltalið er 8 æfingar þýðir það að sundmaðurinn tekur tvo tvöfalda daga á viku, 9 er þrír og 10 er fjórir. Sundmenn sem æfa á efsta stigi mæta stundum á tvöfalda æfingu 5 eða 6 sinnum í viku en það er þó sjaldgæft.

Almenna reglan er sú að þeir sundmenn sem eru með gula mætingu eru þeir sundmenn sem standa sig best, svo bláir og svo svartir. En auðvitað eru alltaf undantekningar frá þessu.

Allir sundmenn ÍRB sem settu Íslandsmet á síðustu þremur árum voru á þeim tíma sem metið var sett með gula mætingu. Allir nema einn sundmaður sem valinn var í landslið var með gula mætingu þegar hann var fyrst valinn.

Gula mætingaplanið er hannað til þess að ná 10.000 klukkustundum af sundi fyrir 22 ára aldur ef sundmaður byrjar að æfa 7 ára. Í mörgum löndum heims ná sundmenn þessu marki fyrr sem þýðir að fjöldi æfinga er meiri á viku þar en í þessu kerfi.

Tilvitnun í rit John Atkinson (sá sem sá um að velja þá efnilegustu í sundi og skipuleggja þjálfun þeirra í Bretlandi og var núna nýlega ráðinn til þess að skipuleggja afreksþjálfun landsliðs Kanada) í um skipulag fyrir aldursflokka og unglinga í sundi:

„Það er ekki til nein styttri leið til þess að verða með þeim bestu í heiminum. Á nýlegri alþjóðlegri ráðstefnu þjálfara sem haldin var í Ástralíu mælti enginn þjálfari gullverðlaunahafa á Ólympíuleikunum með æfingaplani sem gerir ráð fyrir að fáir kílómetrar séu syntir! Dr. Istvan Balyi sagði nýlega við hóp breskra sundþjálfara að til þess að ná framúrskarandi árangri í hvaða íþrótt sem er taki það 10 ár og 10.000 klukkustundir af þjálfun.“

 

Samantekt

Ef allt þetta er tekið saman má sjá að við í ÍRB stefnum að því að byggja upp árangursríkt æfingaskipulag sem byggt er á alþjóðlega viðurkenndu fyrirkomulagi. Við erum staðráðin í því að veita það besta sem í boði er fyrir hug, líkama og sál íþróttamanna okkar. Gerðar eru metnaðarfullar kröfur til mætinga en þó ekki eins miklar og mest gerist á heimsvísu. Við erum með framúrskarandi þjálfara sem hafa frábært viðhorf og árangur sundmanna okkar má rekja til gæða þeirrar vinnu sem þeir leggja af mörkum. Hafið í huga þegar rætt er um fjölda æfinga að vísa í tölurnar á myndinni og forðumst ýkjur.

Þegar við tölum um okkar frábæra félag skulum við gera það af heiðarleika og kynna það eins og það á skilið. Félag sem er framsækið, vel skipulagt og vill að allir meðlimir nái árangri og njóti þess að vera hluti af því.

Ég vona að þér hafi fundist þessar upplýsingar hjálplegar. Ef þú hefur áhuga á því að vita meira um eitthvað af því sem hér hefur verið rætt skaltu ekki hika við að hafa samband við mig.

Ég mæli eindregið með því að foreldrar sundmanna sem ætla sér að ná langt í sundi fjárfesti í bók Gary Barclay-Swimming for Parents. http://www.swimmingforparents.com/

Anthoy Kattan, yfirþjálfari ÍRB