Fréttir

14 Íslandsmet í aldursflokkum á Aðventumóti ÍRB
Sund | 17. desember 2013

14 Íslandsmet í aldursflokkum á Aðventumóti ÍRB

Síðasta sundmót ársins hjá ÍRB var haldið um síðastliðna helgi og er óhætt að segja að það hafi gengið glimrandi. Krakkarnir okkar héldu áfram að slá met eins og þau eru búin að vera svo iðin við síðustu mánuði og mörg Íslandsmet féllu sem voru áður hjá öðrum félögum. 

Tilgangur mótsins var að gefa sundmönnum síðasta tækifærið á árinu til þess að slá Íslandsmet og ná lágmörkum á Euro meet í Luxembourg í febrúar. ÍRB sendir lið um 20 sundmanna á mótið þar sem þeim gefst tækifæri til þess að keppa við afar sterka sundmenn og ná sér í dýrmæta reynslu.

Mörg hundruð bestu tímar náðust um helgina og í leiðinni mörg félagsmet.

Þau Íslandsmet sem féllu um helgina eru þessi:

Sunneva Dögg Friðriksdóttir, Íris Ósk Hilmarsdóttir, Aleksandra Wasilewska og Birta María Falsdóttir  slógu Íslandsmetið í stúlknaflokki í 4x200 skriðsundi í 25 m laug. Stelpurnar syntu á 8:37.88 en gamla metið var 8:40.70 og það átti sveit Ægis síðan 2011.

Aníka Mjöll Júlíusdóttir, Klaudia Malesa, Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir og Stefanía Sigurþórsdóttir slógu Íslandsmetið í meyjaflokki í  4x200 skriðsundi í  50 m laug á tímanum  9:45.15 en gamla metið var 10:19. 25 og það átti sveit ÍRB síðan  2012.  Í leiðinni sló Stefanía í fyrsta boðsundsprettinum Íslandsmetið í meyjaflokki í 200 m skriðsundi á tímanum 2:19.48 og bætti með því met Ragnheiðar Karlsdóttur úr Ægi, (2:20.62) sem hún átti síðan 2011.

Stefanía Sigurþórsdóttir hélt áfram að slá hvert metið á fætur öðru og bætti við Íslandsmetasafnið sitt en hún setti þrjú met fyrir hálfum mánuði á Bikarmóti ÍSÍ (25 m laug)  í 400 skrið, 800 skrið og 400 fjór en það voru allt met sem Eygló Ósk Gústafsdóttir (Ægi) átti.  Á Aðventumótinu bættust við, auk fyrrnefndra meta í eftirfarandi met:
100 skrið (50m laug) á tímanum 1:05.08, gamla metið 1:05.59 átti Eygló Ósk Gústafsdóttir (Ægir-2007).
1500 skrið (50m laug) á tímanum 19:30.89, gamla metið 19:39.32 átti Eydísar Kolbeinsdóttir (ÍRB-2012).
200m fjórsund  (50m laug) á tímanum 2:37.43, gamla metið 2:38.19 átti Eygló Ósk Gústafsd. (Ægir-2007).
400 m fjórsund (50m laug) á tímanum 5:32.92, gamla metið 5:34.49 átti Eygló Ósk Gústafsd. (Ægir-2007).
1500 skrið (25m laug) á tímanum 18:31.29, gamla metið 18:34.08 átti  Eygló Ósk Gustafsd. (Ægir-2007).

Samtals voru þetta 9 Íslandsmet sem Stefanía sló síðustu þrjár vikur og þá eru ekki talin með Íslandmet með boðsundsveitinni. Hún var aðeins sekúndubrotum frá metunum í 400 skrið, 800 skrið og 200 bringu  í 50 m laug en þau met eiga Eygló Ósk Gústafsdóttir og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir (ÍRB).

Sunneva Dögg Friðriksdóttir bætti sitt eigið Íslandsmet 1500 skrið (50 m laug) í telpnaflokki  í 18:08.04 úr 18:16.23. Sunneva var aðeins sekúndubrotum frá metinu í 400 skrið í 25 m laug og bæði 400 skrið og 800 skrið í 50 m laug en þau met eiga Eygló Ósk Gústafsdóttir og Birta María Falsdóttir (ÍRB).

Brynjólfur Óli Karlsson frá Breiðablik sem líka hefur átt frábært ár í því að setja Íslandsmet í sveinaflokki var á mótinu og bætti við metalistann sinn meti í 100 skrið og 200 bak í 50 m laug og 400 fjór, 800 skrið, 1500 skrið í 25 m laug. Eldri metin átti hann sjálfur (200 bak 50 m laug), Ólafur Sigurðsson (SH, 100 skrið 50m laug, 400 fjór og 1500 skrið 25 m laug) og Arnór Stefánsson (SH, 800 skrið 25 m laug).

Til hamingju með metin krakkar!

Nokkrir sundmenn voru einnig mjög nálægt því að slá met og við óskum þeim líka til hamingju með framarir sínar. Það er augljóst að ÍRB verður sterkara og sterkara. Það er árangur mikillar vinnu margra og verður aðeins viðhaldið með áframhaldandi vinnu og áhuga.

Eftir mótið var hið skemmtilega og árlega jólahlaðborð þar sem fjölskyldur sundmannanna komu með kræsingar á hlaðborð og nutu saman og fögnuðu árangri helgarinnar.

Þá er komið að lokum ársins 2013 sem hefur verið frábært hjá liðinu okkar!


Aldursflokkameistaramót Íslands-meistarar
Unglingameistarmót Íslands-Flest verðlaun
Islandsmeistarmót í 25m laug-Flest verðlaun
Bikarmeistarar kvenna í 1. og 2. deild
Bikarkeppni karla annað sæti
Flestir sundmenn í öllum unglingalandsliðum
23 Íslensk aldursflokkamet árið 2013-sum þeirra slegin nokkrum sinnum

Úrslit af mótinu og listi yfir félagsmet kemur á heimasíðurnar á nýju ári.

Til hamingju öll!