Að keppa í sundi- Þýdd grein eftir Andy Adair
Að keppa í sundi
Þýdd grein eftir Andy Adair.
Á 23 ára ferli mínum sem sundþjálfari hefur það valdið mér heilabrotum hvers vegna keppni í sundi er litin öðrum augum en önnur keppni og leikir sem börn okkar iðka.
Til dæmis þegar barn byrjar að æfa fótbolta eða körfu myndi enginn búast við því að þau æfi tvisvar eða þrisvar í viku en spili aldrei leikinn sjálfann á mótum. Að sjálfsögðu spila þau leikinn og keppa það var líklega þess vegna sem þau fóru að æfa.
En þetta á ekki alltaf við um sundkeppni. Í gegn um tíðina hef ég oft þjálfað börn sem hafa ekki tekið þátt í mótum sem við höfum haldið. Þegar ég hef talað við foreldra og spurt þau hvers vegna er svarið oft: „Gunnu líkar ekki að keppa” eða „Jón er ekki tilbúinn ennþá”.
Að mínu mati eru tvö mikilvæg atriði sem þarf að skoða í þessu sambandi. Það fyrra er að krakkar sem keppa ekki fá fremur leið á því að æfa og gefast upp fyrr eða seinna. Hvers vegna ættu þau ekki að gefst upp á þessu? Þau æfa kanski þrisvar í viku en fá aldrei að taka þátt í leiknum sem þetta snýst um. Ég myndi líka gefast upp. Hitt atriðið er ekki eins augljóst en afar mikilvægt. Á öllum mínum ferli sem þjálfari, alls 45 ár, hef ég aldrei hitt barn sem er ekki með eitthvað keppnisskap. Aldrei.
Það er líklegra að það séu foreldrarnir sem eru hræddir fyrir hönd barna sinna vegna þess að það gæti verið að þau séu ekki jafn góð og aðrir eða að þau gætu gert eitthvað vitlaust eða að þeim mistakist á einhvern hátt. Á minni ævi hef ég lært mun meira á þeim mistökum sem ég hef gert heldur en á því sem ég náði árangri í. Mistök geta verið erfið en við lærum á þeim, mun meira en á gleðinni sem góður árangur gefur okkur.
Ég óttast að þetta viðhorf, að vilja vernda börnin okkar gegn öllum mistökum sem svo algengt er í dag, sé í grunninn mjög gallað. Margt af því mikilvægasta sem ég hef lært í lífinu lærði ég af mistökum. Við ættum að hugsa okkur vel um áður en við sviptum börnin okkar þessu sama tækifæri.
Leikurinn “að keppa í sundi” er það sem við gerum. Komið og fylgist með á æfingu og sjáið hve spennan er mikil þegar ég set upp keppni í boðsundi á æfingu-krakkarnir elska það. Verum með í keppninni-það er okkar leikur.