Að loknu AMÍ
ÍRB Aldursflokkameistarar 2011
Sundlið ÍRB kom, sá og sigraði á Aldursflokkameistaramóti Íslands sem haldið var á Akureyri 23.-26. júní. Keppnin var hörð frá fyrsta degi þar sem sundmenn og þjálfarar vissu að hvert sund og hvert stig skiptu gríðarlegu máli. ÍRB leiddi keppnina eftir fyrsta dag með 15 stigum en eftir það tók Sundfélagið Ægir forystuna og hélt henni fram að síðasta degi. Þegar kom að lokadeginum var Ægir með 37 stigum meira en ÍRB og því ljóst að það yrði á brattan að sækja fyrir okkar unga en efnilega lið. Það fór svo þannig að eftir æsispennandi lokadag fögnuðu sundmenn ÍRB sigri með 1393,5 stig en Ægir varð í örðu sæti með 1364 stig. Í þriðja sæti urðu svo gestgjafarnir Óðinsmenn með 601,5 stig.
Það voru ánægðir og sigurreifir sundmenn og þjálfarar sem fóru á lokahófið og tóku við bikarnum góða sem er kominn aftur til Reykjanesbæjar eftir tveggja ára hlé. En þar á undan hafði ÍRB unnið þennan titil í 5 ár.
Á lokahófinu voru einnig veitt fjölmörg einstaklingsverðlaun. Ólöf Edda Eðvarðsdóttir hlaut Ólafsbikarinn sem veittur er fyrir besta afrek í ákveðnum greinum þegar tekið er tillit til aldurs en þessi bikar er gefinn í minningu um Ólafs Þórs Gunnlaugssonar sundmanns og sundþjálfara. Þá varð Ólöf Edda stigahæsta stúlkan 13-14 ára. Ólöf setti einnig telpnamet á mótinu í 100m flugsundi en hún synti á tímanum 1:05.71 og bætti met Soffíu Klemenzdóttur sem einnig er í ÍRB um 10/100.
Þegar svona stór hópur fer á mót skiptir miklu máli að framkoma og hegðun séu til fyrirmyndar. Þeir 45 sundmenn sem fóru frá ÍRB á þetta mót sönnuðu að ekki eingöngu eru þeir frábærir íþróttamenn heldur er framkoma þeirra og prúðmennska til fyrirmyndar. Liðið fékk viðurkenningu á lokahófinu fyrir prúðmennsku og góða framkomu og var það umtalað á meðal starfsmanna mótsins hve vel sundmennirnir komu fyrir og voru kurteisir hvar sem þeir komu.
Talsverður fjöldi foreldra og annara aðstandenda fylgdi hópnum norður og studdi vel við bakið á sundmönnunum og mikil stemmning var á áhorfendapöllunum.
Það verður gaman að verja AMÍ titilinn á næsta ári en AMÍ 2012 verður haldið á heimavelli okkar í Vatnaveröld í Reykjanesbæ.