Fréttir

Sund | 20. maí 2011

Að loknu Landsbankamóti

Síðastliðna helgi var Landsbankamótið í sundi haldið í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. Rúmlega 500 sundmenn tóku þátt í mótinu frá 14 félögum. Mótið er það stærsta sem haldið er hér á landi af félagsliði og er alltaf mjög skemmtilegt með Eurovison stemmningu bæði á bakka og í Holtaskóla þar sem liðin gistu.

Sundmenn kepptu í fimm hlutum.

Átta ára og yngri kepptu á föstudeginum og endaði sá hluti á hinum sívinsæla sjóræningjaleik þar sem nokkrir sjóræningar höfðu stolið þátttökupeningunum og sundmennirnir þurftu að bjarga þeim úr klóm þeirra. Gaman var að sjá sundmenn framtíðarinnar synda og var mikill fjöldi áhorfenda í Vatnaveröld.

Sundmenn 13 ára og eldri kepptu svo í 50m laug fyrir hádegi laugardag og sunnudag og skelltu sér svo í bíó á Fast 5 þegar þeir áttu frí.
Við lok mótsins voru veittir farandbikarar fyrir stigahæstu 200 metra sundið hjá sundmönnum 13 ára og eldri og voru eftirfarandi sundmenn stigahæstir.
Telpur 13-14 ára: Rebekka Jaferian Ægi 582 stig fyrir 200 metra skriðsund.
Drengir 13-14 ára: Þröstur Bjarnason ÍRB 405 stig fyrir 200 metra skriðsund.

Konur 15 ára og eldri: Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi 622 stig fyrir 200 metra fjórsund.
Karlar 15 ára og eldri: Davíð Hildiberg Aðalsteinsson ÍRB 621 stig fyrir 200 metra skriðsund.

Sundmenn 9-12 ára kepptu svo eftir hádegi laugardag og sunnudag í 25m laug. Þeir fengu líka bíóferð á milli hluta og fóru á Dýrafjör á sunnudagsmorgni. Mikið var um bætingar á mótinu og fengu þeir sundmenn sem bættu sína tíma sérstök verðlaun.

Mikill fjöldi áhorfenda fylgdist með mótinu alla helgina.

Eftir að móti lauk var svo glæsilegt lokahóf og uppskeruhátíð ÍRB í hátíðarsal FS. Þangað mættu yfir 200 manns til kvöldverðar og fjölmargar viðurkenningar og verðlaun voru afhent. Veitt voru verðlaun fyrir hvatningarkerfi ÍRB og einnig voru verðlaunaðir sundmenn hvers aldursflokks fyrir sig. Á hófið mætti m.a forseti LEN (Evrópusamtaka Sundsins) og heitir hann Nory Kruchten og veitti hann verðlaun á mótinu. Einnig mættu formaður Sundsamband Íslands Hörður J. Oddfríðarson, Jóhann Magnússon formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar, Einar Haraldsson Formaður Keflavíkur Íþrótta- og Ungmennafélags og Ágúst Guðmarsdóttir gjaldkeri Ungmennafélags Njarðvíkur.

Allar myndir frá mótinu eru komnar á vefinn okkar.

Listi yfir verðlaunahafa á uppskeruhátíðinni má sjá með því að smella hér!