Fréttir

Sund | 12. september 2010

Áheitasund ÍRB

Það voru hressir krakkar sem mættu á Njarðvíkurhöfn á föstudaginn var.  Þau höfðu safnað áheitum og ætluðu að synda frá Víkingaheimum að höfninni í Keflavík á Ljósanótt en urðu frá að hverfa þá vegna veðurs.  Þau lögðu þó ekki árar í bát og um leið og veður var orðið gott og hinir frábæru liðsmenn í Björgunarsveitinni Suðurnes gáfu grænt ljós á sundið var lagt af stað.  Það voru á milli 25 og 30 sundmenn úr ÍRB sem syntu en skipst var á að synda 2-3 sundmenn í 10 mín í senn.  Sundmennirnir voru á aldrinum 14-20 ára.  ÍT Reykjanesbæjar hafði heitið á krakkana kr. 50.000 og tók Stefán Bjarkason á móti þeim við komuna til hafnar í Keflavík en þar hafði einnig foreldraráðið sett upp móttöku með heitri súpu og brauðbollum.  Sundráð ÍRB (sunddeildir Keflavíkur og UMFN) vilja þakka þeim fjölmörgu sem hétu á sundmennina og síðast en alls ekki síst skipverjum á bátum Björgunarsveitarinnar Suðurnes sem gerði þeim þetta verkefni kleift.