Fréttir

Sund | 29. júní 2009

Annað sætið varð niðurstaðan

Lið ÍRB lenti í öðru sæti í stigakeppni liða á AMÍ árið 2009 eftir mikla keppni við lið Ægis allt frá fimmtudagsmorgni og fram á sunnudagskvöld. Eftir samfellda sigurgöngu í fimm ár þá urðum við að lúta í grasi fyrir baráttuglöðum Ægiringum sem hafa beðið eftir þessum titli síðastliðin þrettán ár. Við munum samt ekki leyfa þeim að hafa þennan bikar lengi því stefnan er sett á að endurheimta hann strax að ári liðnu. Stjórnir og þjálfarar óska liði Ægis til hamingju með titilinn og takk fyrir drengilega og spennandi keppni.

Ólöf Edda Eðvarðsdóttir var stigahæsta 11-12 ára meyjan á mótinu á lokahófi SSÍ, en hún átti hreint út sagt frábært mót og vann sjö af þeim átta greinum sem hún keppti í. 

Jóhanna Júlía Júlíusdóttir átti einnig frábært mót og á lokahófi SSÍ þá var hún valin í unglingalandslið SSÍ til keppni á Ólympíudögum Evrópu æskunnar í Tampere í Finnlandi í nk mánuði.

Sindri Þór Jakobsson var valinn efnilegasti ungi sundmaður SSÍ fyrir framúrskarandi árangur á sl. sundári.

Röð þriggja efstu liða:    1. Ægir     2. ÍRB     3. SH

Þjálfarar, stjórn og farstjórar þakka sundmönnum kærlega fyrir helgina þar sem þið voruð liðinu til sóma í allri ykkar framgöngu.

Hafið það sem allra best í sumarfríinu, Áfram ÍRB.