Árangursríkt Landsbankamót
Síðastliðna helgi var Landsbankamótið í sundi haldið í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. Rúmlega 500 sundmenn tóku þátt í mótinu frá 14 félögum. Mótið er það stærsta sem haldið er hér á landi af félagsliði og er alltaf mjög skemmtilegt með Eurovison stemmningu bæði á bakka og í Holtaskóla þar sem liðin gistu.
Sundmenn kepptu í fimm hlutum. Átta ára og yngri kepptu á föstudeginum og endaði sá hluti á hinum sívinsæla sjóræningjaleik þar sem nokkrir sjóræningar höfðu stolið þátttökupeningunum og sundmennirnir þurftu að bjarga þeim úr klóm þeirra. Gaman var að sjá sundmenn framtíðarinnar synda og var mikill fjöldi áhorfenda í Vatnaveröld.
Sundmenn 9-12 ára kepptu svo fyrir hádegi laugardag og sunnudag í 25m laug. Þeir fengu líka bíóferð á milli hluta og fóru á The Avengers eftir hádegi á laugardaginn. Mikið var um bætingar á mótinu og fengu þeir sundmenn sem bættu sína tíma sérstök verðlaun.
Sundmenn 13 ára og eldri kepptu svo í 50m laug eftir hádegi laugardag og sunnudag og skelltu sér svo í bíó á Avengers þegar þeir áttu frí. Íris Ósk vann bikarinn fyrir flest FINA stig í 200 m sundi í flokki 13-14 ára og Árni Már fékk verðlaun fyrir stigahæsta sundið á mótinu (FINA stig) í karlaflokki. Íris Ósk náði einnig á NÆM í 200 m baksundi á sýnimótinu seinnipartinn á sunnudaginn, frábært sund hjá henna þar sem hún var ein að synda með stóran hóp stuðningsmanna sem hvatti hana áfram. Vel gert!
Mótið var mjög árangursríkt og náðum við nánast að tvöfalda fjölda AMÍ lágmarka sem náðst hafa fyrir mótið sem framundan er og ótrúlegur fjöldi var að bæta tíma sína. Bestu þakkir til allra þjálfaranna fyrir þessa miklu vinnu.
Kærar þakkir líka til allra foreldra sem unnu á þessum viðburði. Þetta var samstillt átak þar sem margar vinnustundir skiluðu sér í góðu og vel heppnuðu móti. Takk enn og aftur!