Fréttir

Sund | 14. júní 2007

Bikarmeistaramót Íslands 15. - 16. júní í Vatnaveröld

Bikarmeistaramót Íslands í sundi verður haldið í Vatnaveröld  Reykjanesbæ um næstu helgi.  Bikarmeistaramótið er árleg liðakeppni sundfélaga þar sem reiknuð eru saman stig fyrir hvert sund samkvæmt stigatöflu Alþjóða-sundsambandsins (FINA). Keppni fer fram í tveimur deildum, fyrstu og annarri deild.

Þetta er annað árið í röð sem stórt mót á vegum Sundsambands Íslands er haldið í Vatnaveröld, en í fyrra fór þar fram Aldurflokkameistaramót Íslands. Það má því með sanni segja að Vatnaveröldin sé að koma sterk inn, ekki einvörðungu til æfinga og leikja heldur jafnframt til keppnishalds.

Búast má við harðri keppni í báðum deildum og er gert ráð fyrir því að allir sterkustu sundmenn landsins munu taka þátt, þ.á.m. Erla Dögg Haraldsdóttir, Birkir Már Jónsson, Örn Arnarson, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Sigrún Brá Sverrisdóttir, Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir og Jakob Jóhann Sveinsson. Öll hafa þau nýlokið keppni á Smáþjóðaleikunum. Glæsilegur árangur náðist þar, meðal annars voru sett nokkur Íslandsmet og því má búast við að sundmennirnir verði í góður formi þessa helgina.
Alls munu tæplega 200 sundmenn taka þátt í mótinu.

Lið í 1. deildinni eru
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, Sunddeild Ármanns, Sunddeild KR, Sundfélag Akraness, Sundfélag Hafnarfjarðar A, Sundfélagið Óðinn, Sundfélagið Ægir

Lið í 2. deildinni eru
Sunddeild Breiðabliks, Sunddeild Fjölnis, Sunddeild Grindavíkur, Sunddeild UMFÞ, Sundfélag Hafnarfjarðar B

Mótið er haldið í þremur hlutum. Sá fyrsti er föstudaginn 15. júní, þá hefst keppni klukkan 17:00. Annar hlutinn hefst klukkan 9:30 á laugardaginn og síðasti hlutinn klukkan 16:15 á laugardaginn.

Við hvetjum sem flesta til að leggja leið sína í Vatnaveröld og fylgjast með skemmtilegri keppni. Auk þess verður hægt að fylgjast með úrslitum á www.keflavik.is/sund.