Fréttir

Sund | 1. ágúst 2008

Calella - Fréttir

Gamanið heldur áfram í Calella. Eftir býsna frumlegt æfingaprógram í morgun hjá Edda og Sóleyju, þá hélt hópurinn til Barcelona með rútu. Fyrsta stopp var Ólympíuþorpið, þar sem Ólympíuleikarnir fóru fram árið 1992, en þar voru fulltrúar Íslands þær Ragnheiður Runólfsdóttir og Helga Sigurðardóttir. Þar á eftir lá leiðin niður á "La Rambla", eða Römbluna. Þar snæddum við léttan hádegisverð og skelltum okkar síðan í verslunarmiðstöð á öðrum enda Römblunnar, sem kenndur er við Kristófer Kólumbus.  Því næst lá leiðin upp þessa margfrægu götu, þar sem jafnan er mikið um að vera og fjölbreytt menning. Að endingu var gert stutt stopp við Sagrada Familia kirkjuna, sem Gaudi teiknaði á sínum tíma ... og er enn í smíðum nú um 100 árum síðar. Okkar fólk var til fyrirmyndar í einu og öllu, versluðu, slógu á létta strengi og sýndu mikla samkennd og ábyrgðartilfinningu gagnvart hvort öðru í margmenninu. Myndin hér að neðan var tekin þegar hópurinn slóg saman í söng ... sem vakti hvílíka hrifningu að einn vegfarandinn skutlaði nokkrum centum í ÍRB pottlok. Búið er að bæta við fleiri myndum á myndasíðuna.