Fréttir

Sund | 29. desember 2008

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson útnefndur sundmaður ársins

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson var í kvöld útnefndur sundmaður ársins hjá Sunddeild Keflavíkur.

Davíð er vel að þessu kominn, hann er sérlega efnilegur og duglegur sundmaður og frábær fyrirmynd í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Nú fyrir skemmstu þá fór hann hreinlega á kostum á ÍM 25 þar sem hann varð Íslandsmeistari í fimm greinum og náði um leið lágmörkum fyrir Evrópumeistaramótið í 25m laug. Ekki varð þó af þátttöku hjá honum að þessu sinni því EM 25 var í miðjum prófum í framhaldsskólanum. Alls varð Davíð Íslandsmeistari í 9 greinum á árinu og hefur átt stóran þátt í þeim Íslandsmetum sem karlasveitin hefur sett á árinu bæði í 50 og 25m laug. Hann keppti sl. sumar á Evrópumeistaramóti unglinga með góðum árangri og hefur verið fastamaður í unglingalandsliði Íslands undanfarin ár. Nú er hann kominn í A-landsliðið þar sem hann ætlar sér stóra hluti, eins og að ná lágmörkum til keppni á HM í Róm í sumar. Stigahæstu sund hans á árinu í 50m og 25m braut voru: 100m bak 59.57 742 stig í 50m laug og 100m bak 55.30 791 stig í 25m laug. Alls 1533 stig, sem tryggði honum sæmdarheitið sundmaður ársins.

Meðfylgjandi mynd var tekin í K-húsinu í kvöld, þegar val á íþróttamönnum Keflavíkur var tilkynnt. Davíð er þarna í góðum félagsskap með Steindóri þjálfara sínum og Einari formanni Keflavíkur.