Eðvarð Þór Eðvarðsson fertugur í dag
Sundhetjan og sundþjálfarinn Eðvarð Þór Eðvarðsson er 40 ára í dag og í tilefni dagsins komu stjórnir sunddeildanna og sundmenn ÍRB honum skemmtilega á óvart með ýmiskonar skemmtilegheitum. Súkkulaðikaka og listaverk var meðal þeirra gjafa sem Eðvarð fékk ásamt þessum fallega blöðruvendi sem sjá má fyrir aftan hann.
Eðvarð Þór var kjörinn Íþróttamaður Íslands árið 1986 og í desember fékk hann sérstök verðlaun í tilefni af 20 ára afmæli útnefningarinnar þegar kjör á Íþróttamanni Reykjanesbæjar fór fram. Í dag er Eðvarð Þór annar tveggja yfirþjálfara hjá ÍRB og stýrir einu sigursælasta sundliði Íslands. Eddi er enn í fínu formi og ekki er langt síðan hann keppti með liði ÍRB í Bikarkeppni SSÍ í sundi þar sem hann sýndi ungu kynslóðinni í tvo heimana. Nú undanfarið hefur hann þó fært sig úr lauginni og yfir í hlaupin, en þar er skemmst er að minnast þess að þessi kappsami maður lét sig ekki muna um það að fara heilt maraþon sl. sumar. Kæri Eddi ! Til hamingju með daginn og megi hamingjan hossa þér um ókomna tíð. Stjórnir sunddeildanna.