Eitt Íslandsmet og Sundfélagið Ægir leiðir liðakeppnina í Bikarkeppni Íslands í sundi
Fyrsti hluti í Bikarkeppni Íslands í sundi er lokið. 13 lið taka þátt í mótinu og eru að berjast um sæti. Fjölmargir áhorfendur eru að fylgjast með keppninni í Vatnaveröld í Reykjanesbæ og er stemmningin rafmögnuð.
Strax í upphafi móts tók Sundfélagið Ægir forystu og hélt henni til loka dagsins í I deildinni. Ægir hefur tiltölulega öruggt forskot á Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, Ægir með 11.998 stig og ÍRB með 11.024 stig. Þar á eftir koma Sundfélag Hafnarfjarðar og Sunddeild KR og munar litlu á þeim í baráttu um þriðja sætið. Óðinn situr þægilega í fimmta sætinu og Sundfélag Akraness í því sjötta en Ármann er kominn í erfiða stöðu og situr á botninum með 7.036 stig.
Í annarri deildinni hafa sundfélagið Breiðablik, B sveit Sundfélags Hafnarfjarðar og sunddeild Fjölnis verið að skiptast á að halda forystu. Í lok dags náði Fjölnir forksotinu með 7.582 stig, en fast á hæla þeirra voru B sveit Sundfélags Hafnarfjarðar með 6.863 stig og Breiðablik með 6.847 stig.
Karlasveit Ægis setti glæsilegt Íslandsmet í 4x100 metra fjórsundi karla. Þeir Jón Símon Gíslason, Árni Már Árnason, Jakob Jóhann Sveinsson og Baldur Snær Jónsson bættu þriggja mánaða gamalt með ÍRB um 1,3 sekúndur og syntu á 3:58,47. Þessi glæsilegu sundmenn hafa verið í stöðugri framför og eru yngra sundfólki hvatning til frekari afreka.
Ekki kom á óvart glæsilegt meyjamet sem Eygló Ósk Gústafsdóttir setti í 100 metra baksundi þegar hún synti á 1:13,03 og bætti sitt eigið með um rúma sekúndu. Eygló hefur sýnt einstaka hæfileika í lauginni og á nú þegar helming allra meyjameta og segir Eyleifur Jóhannesson, þjálfari Ægis að góðar líkur séu til þess að hún muni ná mörgum metum í viðbót fyrir árslok.