Erla Dögg íþróttamaður Reykjanesbæjar 2007
Sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir var í dag útnefnd sæmdarheitinu Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2007. Í öðru sæti var borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson og í því þriðja var Brenton Birmingham körfuknattleiksmaður.
Þau voru heiðruð við athöfn í Íþróttahúsinu í Njarðvík, en þar fengu einnig viðurkenningar bestu íþróttamenn hverrar greinar og allir Íslandsmeistarar ÍRB á árinu en þeir töldu 220 manns. Hafa þeir aldrei áður verið fleiri.
Erla Dögg hlaut þessi verðlaun einnig árið 2005, en árið í ár var með eindæmum gjöfult fyrir þessa ungu og bráðefnilegu sundkonu.(Tekið af vef VF)
Erla Dögg fór sannarlega á kostum á þessu ári, hún setti alls tíu íslandsmet og í lok ársins átti hún orðið fimm gildandi met í 25m brautinni og eitt í 50m brautinni. Markverðustu áfangar voru metin sem hún tók af Ragnheiði Runólfsdóttur í stuttu brautinni í 50 og 100m bringusundi en þessi met voru orðin átjan ára gömul og um leið náði hún þeim merka áfanga að verða fyrsta íslenska sundkonan til þess að synda undir 1 mín og 10 sek í 100m bringusundi. Metið sem hún tók í 50m bringusundi í löngu lauginni var einnig komið til ára sinna eða 16 ára gamalt. Erla vann til tveggja gullverðalauna og einna bronsverðlauna á Smáþjóðaleikunum, vann sigur í 100m bringusundi á danska meistaramótinu í 25m laug ásamt silfurverðlauna í 50m bringusundi. Hún vann einnig til silfurverðlauna í 200m fjórsundi og 50m bringusundi á danska meistaramótinu í 50m laug. Hún sigraði í fjölmörgum greinum á alþjóðlegu móti í Darmstadt í Þýskalandi og alls varð Erla Dögg íslandsmeistari í átta greinum á árinu. Stjórnir og þjálfarar óska henni og fjölskyldu hennar innilega til hamingju með árangurinn.