Ferðasaga Kristófers á HM
Hópurinn hittist uppi á Keflavíkurflugvelli á sunnudagsmorgni, þann 30. nóvember, ég, Davíð Hildiberg, Daniel Hannes, Kolbeinn, Kristinn, Hrafnhildur, Eygló Ósk, Inga Elín og svo þjálfararnir Jackie og Klaus. Ferðin byrjaði á flugi til Kaupmannahafnar og svo þaðan til Doha. Þegar við komum loks upp á hótel um miðnætti vorum við búin að ferðast í u.þ.b 15 tíma.
Til þess að missa ekki alla tilfinningu fyrir vatninu fyrir mótið fórum við á 4 sundæfingar á mánudag og þriðjudag.Til að komast í sundlaugina þurftum við að sitja í rútu í 45 mín hvern einasta dag ef það var mikil traffík og við fórum örugglega svona 26 ferðir í heildina. Í nokkur skipti gleymdi rútubílstjórinn að kveikja á loftkælingunni þannig að maður var alveg að steikjast þangað til að einhver bað manninn að kveikja, og það var yfirleitt hann Danni.
Á leiðinni á fyrstu æfinguna tók ég klárlega eftir því að vera kominn til landsins, landslagið, byggingarnar og menningin var allt svo frábrugðið því sem við erum vön hérna á Íslandi. Það sem tók svo á móti okkur þegar við komum að sundlauginn voru tveir risastórir leikvangar sitt hvoru megin og eitt flottasta hótel sem ég hef séð, The Torch, og lítur út eins og ofvaxinn kyndill. Í hvert skipti sem við fórum inn á sundlaugarsvæðið leið mér eins og ég væri kominn upp á flugvöll aftur, vegna þess að til þess að komast þangað þurftum við að fara í gegnum litla öryggisleit. Alveg við innganginn voru básar með helling af ávaxtasafa, banönum, eplum og vatni fyrir sundmenn. Þar tók maður á móti okkur sem hét Fadel. Þegar Jackie sagði “good morning” við hann svaraði Fadel á íslensku “góðan daginn”. Ég hélt kannski að þetta væri bara djók hjá honum og að þetta væri það eina sem hann kunni að segja. En svo þegar við löbbuðum í átt að sundlauginni kallaði hann á eftir okkur: “Davíð, hvað eru þið mörg?”. Þá kom í ljós að hann hefði átt heima á Íslandi í 13 ár. Þetta fannst okkur frekar fyndið.
Í sundlaugarbyggingunni voru tvær laugar, ein sem við kepptum og svo önnur 50m sem við synntum niður í. Að sjá alla þessa frægu sundmenn með eigin augum var alveg magnað og þá sérstaklega þegar ég var bara að hita upp í “rólegheitunum” og fattaði allt í einu að ég að ég væri á sömu braut eða þá að ég væri að taka fram úr heimsmethafa. Og að vera vitni að öllum þessum hröðu sundum og heimsmetum var ótrúlegt. Það sem mér fannst samt merkilegast var að sjá Suður-Afríkubúann Chad le Clos sigra í 4 greinum, þar á meðal öllum flugsundsgreinum, og setja 2 heimsmet eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Ég átti sjálfur alveg ágætt mót. Þó svo að ég hafi ekkert bætt mig þá voru allir tímarnir mínir þeir næstbestu og ég er alveg sáttur með það. Seinasta kvöldið fórum við krakkarnir í skoðunarferð með Fadel og vin hans Ahmed og þeir sýndu okkur borgina. Þetta mót var ólíkt öllum mótum sem ég hef tekið þátt í og eitt það skemmtilegasta og án efa það stærsta. Þetta fer klárlega inn í reynslubankann og ég hlakka til að taka þátt í fleiri svona mótum.