Fréttir

Sund | 20. nóvember 2006

Fleiri met í sundinu !

Íslandsmet, aldursflokkamet, þrír íslandsmeistaratitlar, átta ný innanfélagsmet ásamt gríðarlega góðri stemmingu og kraftmikilli hvatningu var það sem lokadagur IM 25 hafði uppá að bjóða hjá okkar fólki. Telpnasveitin byrjaði daginn með látum í undanrásunum þegar þær settu nýtt telpnamet í 4 *100m skriðsundi á tímanum 4.12.27. Sveitina skipuðu þær Svandís Þóra Sæmundsdóttir, Jóna Helena Bjarnadóttir, Elfa Ingvadóttir og Soffía Klemenzdóttir. Í úrslitunum lét okkar fólk svo sannarlega til sín taka og í fyrstu grein tók Erla Dögg Haraldsdóttir sig til og bætti íslandsmetið í 200m fjórsundi og vann með gríðarlegum yfirburðum eða rúmlega sjö sekúndum. Næsti titill vannst síðan í 400m skriðsundi þar sem Birkir Már Jónsson sigraði glæsilega. Erla Dögg var greinilega komin í gang og mætti skömmu síðar galvösk í 100m bringusund þar sem hún sigraði á sínum besta tíma í greininni sl. tvö ár 0,6 sek frá íslandsmetinu í greininni. Liðsmenn ÍRB unnu alls til níu íslandsmeistartitla á innanhússmeitaramótinu um helgina og settu alls 34 innanfélagsmet.

Þeir sem urðu íslandsmeistarar voru: Hilmar Pétur Sigurðsson í 1500 metra skriðsundi, Birkir Már Jónsson í 200 metra flugsundi og 400m skriðsundi, Hjalti Rúnar Oddsson í 50 metra baksundi, DavíðHildiberg Aðalsteinsson í 100 metra baksundi, Erla Dögg Haraldsdóttir í 200 metra flugsundi, 200m fjórsundi (Íslandsmet) og 100m bringusundi, og karlasveit ÍRB í 4*50 metra fjórsundi (Íslandsmet)

Íslandsmetin sem okkar fólk setti um helgina voru eftirfarandi: Erla Dögg Haraldsdóttir íslandsmet í 200m fjórsundi, Gunnar Örn Arnarson drengjamet í 400 metra fjórsundi. Karlasveit ÍRB í  4*50 metra fjórsundi, sveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Guðni Emilsson, Hjalti Rúnar Oddsson og Birkir Már Jónsson og telpnasveit ÍRB í 4*100 metra skriðsundi  en sveitina skipuðu þær Svandís Þóra Sæmundsdóttir, Jóna Helena Bjarnadóttir, Elfa Ingvadóttir og Soffía Klemenzdóttir.