Flottur árangur sundfólks
Sundfólk ÍRB var standa sig einkar vel á 80 ára afmælismóti sunddeildar Ármanns í Laugardalslauginni um helgina. Flestir sundmennirnir voru að bæta sig talsvert og sýndu oft á tíðum frábæra takta í mörgum greinum. Yngstu sundmennirnir voru sérlega sprækir og voru að ná talsvert af lágmörkum fyrir Aldursflokkameistaramótið og er hópurinn okkar alltaf að stækka. Liðið rakaði inn verðlaunum og er á hárrétti leið fyrir Aldursflokkamót Íslands sem fram fer á Akureyri í lok júní. Þar er stefnan sett á að vinna titilinn fjórða árið í röð. Elsta sundfólkið var í sama frábæra gírnum og synti einkar vel. Alls bættust 5 innanfélagsmet í safnið en voru að verki Soffía Klemenzdóttir með fjögur met, eitt í skriðsundi, eitt í fjórsundi og tvö í flugsundi og Erla Dögg Haraldsdóttir með eitt met í bringusundi. Þess má geta að Erla Dögg synti næsthraðasta tíma íslenskrar sundsögu í 100m bringusundi í 25m laug þegar hún synti á frábærum tíma 1.10.86, sem er eingöngu 0,20 frá meti Ragnheiðar Runólfsdóttur 1.10.66 frá 1989. Með þessu sundi varð Erla Dögg önnur íslenskra kvenna í sögunni til að þess að fara undir 1.11.00 í 100m bringusundi. ÍRB liðar eru í stuði þessa dagana og gaman verður að fylgjast með þeim í keppni við önnur lið á Sparisjóðsmótinu sem fram fer í Vatnaveröldinni dagana 12. og 13. maí nk.
Nýjar myndir í myndasafni og metaskrá Keflavíkur hefur verið uppfærð.