Fréttir

Frábær æfingadagur!
Sund | 9. maí 2013

Frábær æfingadagur!

 

Þriðji æfingadagur ársins fyrir okkar yngri sundmenn okkar var haldinn í dag og tókst mjög vel. Alls voru það 60 krakkar sem tóku þátt allt frá Sprettfiskum upp í Háhyrninga. Það er algerlega frábært að svo margir komu og voru með. Núna er síðasta vikan hjá sumum og Landsbankamótið hefst á morgun.

Þjálfararnir Hjördís, Helga, Rúnar og Anthony sáu um að stýra krökkunum og fjórir sérstakir gestir úr hópi elstu sundmanna okkar voru ofan í lauginni að hjálpa til, Aleksandra, Erla, Jón Ágúst og Kristófer. Byrjað var á því að gefa yngri krökkunum tækifæri á því að  hitta eldri sundmennina og spyrja þau út í ýmislegt sem þau langaði að vita um sund eða reynslu þeirra eldri af íþróttinni. Við höfðum smá áhyggjur fyrirfram að krakkarnir yrðu of feimnir til þess að spyrja en það fór svo þannig á endanum að við náðum ekki einu sinni að svara öllum spurningunum sem krakkarnir höfðu. Þetta var mjög skemmtilegt, auðvelt var að sjá áhugann og gleðina hjá yngri krökkunum og þau líta greinilega upp til stóru krakkanna.

Eftir spjallið voru æfðar stungur en eitt af markmiðum dagsins var að auka öryggi krakkanna í stungum og mátti sjá miklar framfarir. Eftir 50 mínútur af stunguæfingum og sýnisund eldri sundmannanna var hópnum skipt í 4 lið sem kepptu í skriðsund boðsundi. Í hverju liði var einn eldri sundmaður og byrjuðu þau boðsundið á því að synda 50 m sprett, Erla flug, Jón bak, Kristófer bringu og Aleksandra skriðsund. Foreldrar og þjálfarar sáu það vel að yngri krakkarnir horfðu á nýju hetjurnar sínar með mikilli aðdáun í svipnum.

Að lokum fengu krakkarnir að leika sér í Vatnaveröld þar til æfingadagurinn var búinn.

Bestu þakkir til foreldra fyrir að koma með börnin á þennan góða æfingadag á frídeginum ykkar. Við vonum að krakkarnir hafi fengið sem mest út úr deginum og haft gaman af. Kærar þakkir til eldri sundmanna og þjálfara sem stóðu sig svona vel í því að stýra þessu.
 

Sjáumst á mótinu!