Fréttir

Frábær æfingadagur ungra sundmanna í 50 m laug
Sund | 3. febrúar 2013

Frábær æfingadagur ungra sundmanna í 50 m laug

 

Eitt af því sem litlum sundkrökkum getur fundist ógnvekjandi er að synda í 50 m laug. Einu sinni á ári keppa yngstu krakkarnir á móti með 50 m laug og er það á Gullmóti KR. Í ár vildum við að þau væru betur undir þetta búin og gætu mætt á mótið með þeirri vissu að þau gætu vel klárað sundið sitt í stóru lauginni.

Markmið æfingadagsins að þessu sinni var einfaldlega að gera yngstu sundmennina öruggari í stóru, löngu lauginni. Hver sundmaður synti um 14 ferðir í lauginni, krakkarnir fóru í ýmsa skemmtilega leiki, tíminn var tekinn á þeim, stungur voru æfðar og svo fengu allir að leika sér í Vatnaveröld.
 

Allir krakkarnir lögðu sig mjög vel fram. Laugin er stundum full köld fyrir þau en flest létu það ekki á sig fá og það voru ansi mörg brosandi andlit á æfingadeginum.

Bestu þakkir fá þjálfararnir okkar þau Hjördís, Helga og Rúnar fyrir sinn þátt en dagurinn gekk vel í alla staði og markmiðunum var náð.