Glæsilegt !! - Samantekt eftir Íslandsmót
Sundfólk úr Reykjanesbæ sópaði til sín titlum á Íslandsmeistaramótinu í sundi nú um helgina. Liðsmenn ÍRB unnu 20 af þeim 40 Íslandsmeistaratitlum sem keppt var um ásamt því að vinna 13 silfurverðlaun og 14 bronsverðlaun. Sundmenn ÍRB státa einnig af 6 af þeim 12 Íslandsmetum sem sett voru um helgina. Þar átti karlasveit félagsins tvö met og Erla Dögg Haraldsdóttir 4 met. Erla Dögg hefur slegið alls 9 Íslandsmet frá því um miðjan október sem er glæsilegt afrek. Sex aldursflokkamet voru slegin en þar setti stúlknasveitin eitt, drengjasveitin eitt og Soffía Klemenzdóttir fjögur. Soffía hefur einnig verið í gríðarlegum ham undanfarið og slegið alls fimm aldursflokkamet á síðustu mánuðum. Þetta mót var lokafrestur til þess að ná lágmörkum fyrir Norðurlandameistaramót unglinga sem fram fer í Færeyjum 1. og 2. desember. Alls náðu átta íslenskir sundmenn lágmörkum og er helmingur þeirra í ÍRB, þau Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Elfa Ingvadóttir, Jóna Helena Bjarnadóttir og Soffía Klemenzdóttir.
Veglegt lokahóf Sundsambands Íslands fór fram á Broadway á sunnudagskvöldinu. Þar hlaut Erla Dögg Haraldsdóttir verðlaun fyrir besta afrek kvenna á mótinu og eftir frábæra frammistöðu sundmanna ÍRB á Íslandsmeistaramótinu um helgina kom það engum á óvart að Steindór Gunnarsson yfirþjálfari ÍRB skyldi vera valinn þjálfari ársins. Steindór er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu kominn en hann hampaði einnig þessum titli á síðasta ári. Hann, ásamt Eðvarði Þór Eðvarssyni, er búinn að byggja upp feikna sterkt lið sem sýnt hefur glæsilegan árangur undanfarin misseri. Dómari ársins, Haraldur Hreggviðsson, kom einnig úr röðum ÍRB en þess má geta að hann er faðir Erlu Daggar. Aðspurður um hverju Steindór þakkaði þennan frábæra árangur, þá svaraði hann því til að þetta væri sigur sterkrar liðsheildar sem er skipuð sundmönnum, þjálfurum, foreldrum, stjórn, bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ og fyrirtækjum sem styrkja og styðja starf félagsins.
Myndirnar voru teknar á lokahófinu, fyrri myndin sýnir Soffíu og síðari myndin Steindór, Erlu Dögg og Harald.