Fréttir

Sund | 16. nóvember 2007

Glæsilegur árangur á IM-25 í sundi

Sundmenn ÍRB hafa náð hreint út sagt frábærum árangri á Íslandsmeistaramóti Íslands í 25 metra laug. Að loknum öðrum keppnisdegi hafa liðsmenn ÍRB sigrað 6 greinar, fengið 6 silfurverðlaun, 4 bronsverðlaun, sett 2 Íslandsmet og 2 telpnamet.  Erla Dögg Haraldsdóttir gerði sér lítið fyrir og sló nokkurra vikna gamalt met sitt í 100 metra fjórsundi um rúma hálfa sekúndu.  Karlasveit ÍRB sigraði með glæsilegum hætti í 4*50 metra skriðsundi og bættu í leiðinni metið í greininni um hálfa sekúndu.  Soffía Klemenzdóttir tvíbætti telpnametið í 200 metra flugsundi þ.e. hún synti undir gamla metinu hvoru tveggja í undanrásum og úrslitum, þegar dagurinn var allur var hún búin að bæta metið um 2 sekúndur. Eftirtaldir liðsmenn ÍRB hafa sigrað grein á Íslandsmeistaramótinu.  Hilmar Pétur Sigurðsson, 1500 metra skriðsund, Erla Dögg Haraldsdóttir, 100 metra fjórsund, Árni Már Árnason, 100 metra fjórsund og 200 metra bringusund, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, 50 metra baksund og karlasveit ÍRB, 4*50 metra skriðsundi. Mótið heldur áfram á morgun og mundu sundmenn ÍRB án nokkurs vafa halda uppteknum hætti.