Fréttir

Sund | 25. janúar 2010

Góð ferð á Lyngby Open

Það voru þreyttir en sælir og glaðir sundmenn sem komu frá Danmörku síðdegis í dag. Keppnisferðin var í alla staði skemmtileg, og fannst okkur þjálfurunum gaman að ferðast og taka þátt í móti á erlendri grundu með þessum skemmtilega fyrirmyndarhópi. Mótið var nokkuð langt og reyndi vel á þolinmæðina og þrautseigjuna, því eftir lendingu var haldið beint til Lyngby og keppt langt fram á kvöld, eða til 21.30. Á laugardag og sunnudag var síðan vaknað kl 06:00 og byrjað að keppa fram eftir degi, síðan tóku úrslitin við í beinu framhaldi eða með ca. 1-2 klst. í hvíld á milli hluta. Við héldum því til í lauginni á milli hluta þar sem það tók því ekki að ganga í skólann þar sem við gistum en hann var í ca. 20 mínúta göngu fjarlægð, mótið var síðan búið um kl 20:00 bæði kvöldin. Í morgun var síðan vaknað aðeins seinna eða kl. 7:00 því stefnt var á að kíkja aðeins í búðir þrátt fyrir knappan tíma. Því var stefnt á Fields á heimferðinni og þar fengu allir að rasa út eftir þörfum.

Keppnin á mótinu gekk ágætlega, sumstaðar sáust bætingar en inn á milli voru þung sund, sem er alveg eðlilegt miðað við hvar við erum í æfingaferlinu og einnig hvernig ferðatilhöguninni var háttað. Keppt var í beinum úrslitum í 200m og 400m greinunum og þar unnum við nokkur verðlaun, í 50 og 100m greinunum var keppt í undanrásum og úrslitum komust nokkrir í úrslit og nokkrir unnu til verðlauna.

Þeir sem kepptu í úrslitum voru: Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Gunnar Örn Arnarson, Íris Dögg Ingvadóttir, Jóhanna Júlía Júlíusdóttir, Kristinn Ásgeir Gylfason, Ólöf Edda Eðvarðsdóttir og Soffía Klemensdóttir.

Þeir sem unnu til verðlauna voru:

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson: 100m baksund silfur og 200m baksund silfur.

Gunnar Örn Arnarson: 400m fjórsund silfur, 200m bringusund gull, 200m fjórsund silfur, 100m bringusund gull.

Jóna Helena Bjarnadóttir: 400m fjórsund brons.

Jóhanna Júlíusdóttir: 100m baksund silfur, 200m baksund brons.

Ólöf Edda Eðvarðsdóttir: 400m skrið brons, 200m bringusund gull, 50m bringusund silfur, 100m bringusund silfur.

Alls 13 verðlaun.

Kæru foreldrar, til hamingju með börnin ykkar um helgina þau voru félaginu, landi og þjóð og sér sjálfum til sóma.

Trænerene siger, tak for turen og vi ses i morgen :-)