Guðni Emilsson með þrenn verðlaun í sundi á NMU.
Guðni Emilsson skilaði frábærum árangri á NMU í Finnlandi nú um helgina. Hann vann til alls þrennra verðlauna, en langt er síðan íslenskur sundmaður hefur afrekað slíkt á þessu móti.
Guðni hóf mótið á laugardagsmorgninum með því að vinna bronsverðlaun í 200m bringusundi á frábærum tíma 2,17,25, þar sem hann bætti sig um 1,5 sekúndu. Eftir hádegið þá vann hann til silfurverðlauna í 50m bringu á frábærum tíma 28,97 en íslandsmetið í greininni er 28,22. Með þessum árangri í þessum greinum varð hann fjórði íslenski sundmaðurinn í sögunni til þess að fara undir 29,00 sek í 50 bringu og einnig sá fjórði til að fara undir 2,18,00 í 200 bringu. Á sunnudeginum vann hann síðan til þriðju verðlaunanna. Silfurverðlaun með frábæru sundi í 100m bringusundi 1,02,99 sem er nýtt íslenskt piltamet í greininni og aðeins 17/100 frá gullverðlaununum. Þessi tími í 100m bringusundi skipar honum í 5 sætið yfir besta árangur íslendings í 100m bringusundi. Sérlega glæsilegt mót hjá Guðna sem í framtíðinni á eftir að verða eitt af stóru nöfnunum í íslensku sundlífi.Davíð Hildiberg Aðalsteinsson liðsfélagi Guðna keppti einnig á mótinu. Hann var alveg við sinn besta árangur í 50m og 100m baksundi en bætti sinn fyrri árangur í 200m baksundi um tæplega sekúndu, Davíð er á yngri árinu á þessu móti sem spannar tvö ár þannig að hann kemur til með að berjast um verðlaun á næsta ári.