Fréttir

Sund | 25. febrúar 2007

Gullmót KR, ÍRB sigrar með fáheyrðum yfirburðum

Nú um helgina fór fram Gullmót KR sem er fjölmennasta sundmót sem haldið er hér á landi ár hvert.  ÍRB sendi harðsnúna sveit til leiks með væntingar um góðan árangur einstaklinga og þar af leiðandi góða stigasöfnun í stigakeppni liða. Hvorugt olli vonbrigðum því okkar ágætu sundmenn stóðu sig með miklum ágætum sem varð til þess að liðið sigraði stigakeppni félaga með fáheyrðum yfirburðum eða rúmlega 500 stiga mun.  Liðsmenn sigruðu í fjölda einstaklingsgreina og öllum boðsundum í flokknum 13 ára og eldri. Soffía Klemenzdóttir sigraði í stigakeppni telpna (13 - 14 ára) og Kristófer Sigurðsson sigraði í stigakeppni sveina (12 ára og yngri). Þrátt fyrir að vera í þungum æfingum náði afreksfólkið okkar að sýna góða takta með þau Erlu Dögg Haraldsdóttur, Soffíu Klemenzdóttur, Birki Má Jónsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Elfu Ingvadóttur í broddi fylkingar. Þess má geta að þau Davíð og Elfa náðu lágmörkum inn í unglingalandslið Íslands sem tryggir þeim þátttöku á sterku alþjóðlegu sundmóti í Luxembourg rétt eftir páska. Þar að auki náði fjöldi sundmanna tilskyldum lágmörkum til þátttöku á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug sem fram fer eftir 3 vikur og Aldursflokkamóti Íslands sem fram fer í endaðan júní, á báðum þessum mótum stefna sundmenn ÍRB að úrvals árangri.