Fréttir

Heimsókn frá Álaborg
Sund | 21. október 2013

Heimsókn frá Álaborg

Elstu sundmenn ÍRB áttu frábæran dag með glæsilegum hópi 10 danskra sundmanna frá Álaborg en í hópnum voru m.a. Mia Nielsen verðlaunahafi af HM og Viktor Bromer verðlaunahafi af EM. Eftir að hafa tekið hefðbundna morgunæfingu syntu 14 elstu krakkarnir með danska liðinu í lauginni okkar undir stjórn Eyleifs Jóhannessonar. Leifi hefur verið yfirþjálfari Álaborgarliðsins í 6 ár og skilað miklum árangri. Í ár var hann valinn þjálfari ársins í Danmörku.  Á TYR móti Ægis um síðustu helgi slógu fjórar sundkonur í hópnum Danmerkurmetið í 4x50 m fjórsunds boðsundi og Mia sem synti baksundslegginn sló Danmerkurmetið í 50 m baksundi.

Eftir sameiginlegu æfinguna fór allur hópurinn saman í Bláa lónið og nutu þar lífsins og slökuðu vel á. Eftir lónið var slegið í grillveislu þar sem foreldrar grilliðu girnilega borgara ofan í sísvanga sundfólkið. Eftir góða máltíð talaði Leifi um reynslu sína sem þjálfari og hvað þarf til þess að verða frábær sundmaður.

Hér eru nokkrir punktar úr því sem Leifi sagði:

  • Ferlið að byggja upp afrekslið tók 5 ár, byrjaði með því að einn náði í unglingalandslið, svo tveir og fleiri og fleiri sáu möguleikana og bættust við þennan flokk.
     
  • Þegar hann byrjaði var hann með Elite hóp sem í rauninni hafði ekki það sem þurfti til þess að kallast Elite hópur. Ekkert var að gerast á meistaramótum og engin verðlaun með landsliðum.
     
  • Hann breytti nafninu á hópnum og smátt og smátt kom B hópurinn (yngri sundmenn) inn en hinir eldri sem höfðu verið í Elite hópunum duttu út smátt og smátt því þau voru ekki að fylgja með í breytingunum sem hann var að innleiða, voru ekki tilbúin að leggja það á sig sem þurfti.
     
  • Það er mikilvægt að fara út fyrir sinn þægindaramma til þess að ná árangri. Þeir sem ekki voru tilbúnir til þess og vildu engar breytingar hættu en yngri sundmenn (B hópur) var tilbúinn að leggja meira á sig og er uppistaðan í hópnum hans núna.
     
  • Árangurinn lét ekki á sér standa, fengu fyrst ein verðlaun á Norðurlandamóti unglinga, árið eftir voru það 10 verðlaun á NMÆ og síðan hefur þetta vaxið og í dag eiga þau heimsmeistara, Evrópumeistara og marga í hinum ýmsu landsliðum og moka inn verðlaunum á danska meistaramótinu.
     
  • Hann lagði mikla áherslu á þetta að það gerist ekkert fyrr en sundamaður fer út úr þægindahringnum. Þegar þægindahringurinn verður stærri þarftu að leggja enn meira á þig til þess að komast út úr þægindahringnum. Töfrarnir gerast þegar menn gera þetta og ögra sjálfum sér.
     
  • Það er ekki skylda að vera í sundi og ekki fórn heldur val hvers og eins. Sundmenn velja alla daga, allan daginn að gera þetta.
     
  • Krakkarnir í danska liðinu eru alveg eins og okkar, í fullu námi og eiga sína vini og fjölskyldur. Sundmenn þurfa að passa vel upp á að halda jafnvægi í lífinu og skipuleggja sig vel. Krakkarnir taka t.d. með sér skólabækurnar í sundferðir.
     
  • Fjöldi æfinga er svipaður hjá þeim og okkur en á hverju ári bætist við ein æfing en ekki ein á tveggja ára fresti eins og hjá okkur.
     
  • Sundmenn hjá þeim æfa 7- 10 sinnum í lauginni eftir aldri og æfingaprógrammi. Fimm æfingar á landi.
     
  • Mikilvægt að æfa vel á kynþroskaaldri, því þeir sem fá of fáar æfingar á því tímabili ná aldrei sama árangri og hinir í framtíðinni.
     
  • Þau passa vel upp á matarræðið, fá næga hvíld og að þau drekki nóg, eru ábyrg sjálf og vita hvað þau þurfa að gera til þess að standa sig.
     
  • Ferðin til Íslands var fyrir þá sem eru með 740 FINA stig eða meira. Öll lágmörk og viðmið liðsins eru kynnt í upphafi og staðið við þau. Skiptir ekki máli þó þú sért með 739 FINA, viðmiðin eru þessi og staðið við þau.
     
  • Skiptir miklu máli að vera með skýrar kröfur og reglur og standa við þær.
     
  • Skiptir mjög miklu að sundmenn trúi á sjálfa sig. 90% er það sem er í hausnum á þér. Trúin á sjálfan sig og vera rétt stemmdur á keppnisdegi.

Mjög margt af því sem Leifi sagði á við um okkar lið og okkar þjálfunaráætlunina en við erum tveimur þremur árum á eftir honum þar sem liðið okkar er mun yngra en hans lið.

Okkur sýnist ÍRB vera á réttri leið og vera að gera réttu hlutina.

Dagurinn var svo sannarlega ánægulegur og við færum Edda og Fal kærar þakkir fyrir að taka að sér skipulagninguna.