Hluta 2 lokið á bikarkeppni SSÍ í Vatnaveröld
Keppni dagsins fór vel í gang og voru allir vel vakandi þegar fyrsta sund var ræst klukkan hálftíu. Röð liðanna í fyrstu deild hefur að mestu haldist óbreytt og hélt Ægir forskoti sínu á ÍRB allan daginn og þar á eftir eru SH og KR en Óðinn og ÍA hafa barist um fimmta sætið. Ármann situr sem fyrr í sjöunda sætinu og á það á hættu að falla niður í aðra deild ef næstefsta lið annarrar deildar verður stigahærra en Ármann.
Í annarri deildinni heldur Sunddeild Fjölnis velli. Fá stig skilja þau að frá næstu tveim liðum, Sundeild Breiðabliks og B sveit sundfélags Hafnarfjarðar sem hafa verið að skiptast á 2. og 3. sæti í dag. Mikil keppni er því að í annarri deildinni um hvaða lið munu komast upp í fyrstu deildina að ári.
Skagamærin Salóme Jónsdóttir stórbætti eigið meyjamet í 200 metra flugsundi um hálfa fjórðu sekúndu er hún synti 2:46,32 sek. Salóme sagði eftir sundið að hún hefði undirbúið sig til að ná þessu meti en sundið sjálft var léttara en hún hélt því hún var svolítið stressuð fyrir sundið.
KR-ingurinn Hrefna Leifsdóttir náði lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga, sem fram fer í Antwerpen í júlí, í 200 metra baksundi og synti á 2:27,86 sek. Hrefna er þar með sú þriðja inn í EMU hópinn þar sem fyrir eru Rakel Gunnlaugsdóttir, ÍA og Hrafnhildur Lúthersdóttir, SH.
Stigastaðan í lok annars hluta er
I. deild | Stig |
Sundfélagið Ægir | 22.027 |
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar | 20.103 |
Sundfélag Hafnarfjarðar | 18.065 |
Sunddeild KR | 17.531 |
Sundfélagið Óðinn | 16.308 |
Sundfélagið Akranes | 16.232 |
Sunddeild Ármann | 12.026 |
II.deild | Stig |
Sunddeild Fjölnis | 12.930 |
Sunddeild Breiðabliks | 12.435 |
B – sveit Sundfélags Hafnarfjarðar | 12.296 |
UMF Þróttur Vogum | 5.766 |
Grindavík | 4.244 |
Sunddeild Stjörnunar | 3.735 |