Fréttir

Sund | 6. júlí 2008

ÍRB Bikarmeistarar kvenna og karla í sundi 2008

Stemmningin náði hámarki á 3. mótshluta Bikarkeppni Íslands í sundi sem haldin var í Vatnaveröld Reykjanesbæ 4. - 5. júlí. Bikarkeppninni er lokið og er niðurstaðan þessi: 

Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, ÍRB, er bikarmeistari í sundi bæði í flokki karla og flokki kvenna árið 2008.  
Sex aldursflokkamet féllu á mótinu og þar af sló Kristinn Þórarinsson, 12 ára sundmaður úr Fjölni, fjögur gömul sveinamet.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, ÍRB, náði lágmarki á EMU.
Sundmenn, sem fara á Ólympíuleikana í sumar, eru í þungum æfingum og synda því ekki á sínum bestu tímum.

ÍRB Bikarmeistarar karla og kvenna í sundi árið 2008


Steindór Gunnarsson og Eðvarð Þór Eðvarðsson, þjálfarar ÍRB

 

Kristinn Þórarinsson Fjölni

 

 

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson ÍRB, ásamt Bryndísi Rún Hansen Óðni og Soffíu Klemensdóttur ÍRB, en þau ásamt Sindra Þór Jakobssyni hafa náð lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga í sundi, EMU, sem haldið verður í Serbíu í byrjun ágúst.

 

 

Yfirlit yfir árangur mótsins
 
ÍRB sigraði liðakeppnina bæði í flokki kvenna og flokki karla. ÍRB fékk 15.966 stig í flokki kvenna og 16.069 í flokki karla. ÍRB leiddi stigakeppnina frá upphafi.

Tvö aldursflokkamet féllu í boðsundi, þar af annað nú rétt áðan þegar stúlknasveit SH synti 100 metra skriðsund boðsund á tímanum 04:09.17. Sveitina skipa Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, Hildur Erla Gísladóttir, Snjólaug Tinna Hansdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir. Fyrir átti ÍRB metið með tímanum 04:12.51 frá því í apríl á þessu ári.

Stúlknasveit SH setti í gær aldursflokkamet í 4x100 metra fjórsund boðsundi á tímanum 04:37.15. Sömu stúlkur skipa sveitina og áttu þær sjálfar gamla metið frá því 6. apríl á þessu ári.

Kristinn Þórarinsson, 12 ára sundmaður úr Fjölni, sló fjögur gömul sveinamet í tveimur greinum. Hann synti 100 metra skriðsund á tímanum 01:05.84 og setti í leiðinni met í 50 metra skriðsundi með millitímanum 00:31.04. Gamla metið í 50m skriðsundi átti Hrafn Traustason, Sundfélagi Akraness, frá árinu 2004 og metið í 100 metra skriðsundi áttu Svavar Skúli Stefánsson, SH, og Kristófer Sigurðsson, ÍRB. Kristinn setti svo sveinamet í 100 metra baksundi þegar hann synti á tímanum 01:15.32. Gamla metið í 100 metra baksundi átti Strahinja Djuric, Ármanni.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, ÍRB, synti 100 metra baksund á tímanum 00:59.57 og vann sér því þátttökurétt á Evrópumeistaramóti unglinga, EMU, sem haldið verður í lok mánaðarins.

Bikarmótið hefur gengið mjög vel. Steindór Gunnarsson, þjálfari ÍRB, segir að stór hluti sundmanna hafi verið að synda aðeins frá sínum bestu tímum en mjög flott sund hafi komið inn á milli, lágmörk á Evrópumeistaramót unglinga og aldursflokkamet, og keppnin verið jöfn.

“Sundmenn sem eru að fara að keppa á Ólympíuleikunum eru í þungum æfingum og eru því ekki að skila sínum bestu tímum. Bikarkeppnin er öðruvísi að því leytinu til að sundmennirnir eru kannski ekki að synda í sínum bestu greinum og því sér maður ekki hvað þeir eru að gera í sínum bestu greinum. Lið raða upp í margar greinar og þurfa því að hafa mannskap í þær allar þannig að toppfólkið er kannski ekki að synda sína uppáhaldsgrein,” segir Steindór og telur árangurinn á mótinu eðlilegan miðað við aðstæður.

Niðurstaða stigakeppninnar:

1. deild kvenna
1. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, ÍRB 15.966
2. Sundfélagið KR 15.060
3. Sunddeild Ægir 14.933
4. Sundfélag Hafnarfjarðar, SH 14.021
5. Sundfélag Akraness 12.893
6. Sundfélagið Óðinn 12.315

2. deild kvenna
1. Sunddeild Fjölnis 9.530
2. Hamar, sunddeild 683


1. deild karla
1. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, ÍRB 16.069
2. Sundfélag Hafnarfjarðar, SH 15.106
3. Sundfélagið Ægir 13.651
4. Sunddeild KR 13.623
5. Sundfélag Akraness, ÍA 11.424
6. Sundfélagið Óðinn 10.907

2. deild
1. Sunddeild Fjölnis 8.025

Samtals syntu tæplega 200 sundmenn á bikarmótinu.