ÍRB sigraði AMÍ með miklum yfirburðum
Um nýliðna helgi fór fram Aldursflokkameistaramót Íslands (AMÍ) á Akureyri. Okkar frábæra lið sigraði keppnina með miklum yfirburðum. Við unnum 71 gull, 42 silfur og 2 brons-samtals 142 verðlaunapeninga!!! Eftir sjötta og síðasta mótshlutann vorum við með samtals 1016 stig og í raun var aldrei nein samkeppni um fyrsta sætið. I öðru sæti varð Ægir með 563 stig og SH í því þriðja með 365 stig.
Helgin var mikil upplifun fyrir sundmennina 38 og þær fjölskyldur sem fylgdu með. Hegðun og frammistaða sundmannanna var til fyrirmyndar í alla staði. Það er ljóst að ÍRB vakti mikla athygli fyrir hve stóru liði það kom á bæði UMÍ og AMÍ og ekki síður fyrir frammistöðu keppenda sinna. Svona árangur næst ekki á einni nóttu heldur er hann árangur vinnu þjálfara, sundmanna og stuðningsaðila í langan tíma. Mikil og góð stemming var á Akureyri meðal sundmanna og foreldra og andinn á mótinu var einstaklega góður. Eins og margir hafa áður sagt er þetta alltaf skemmtilegasta og mest spennandi mót ársins.
Nokkur afreksverðlaun eru alltaf afhent á lokahófi AMÍ og í ár hlutu þrjár stúlkur úr röðum ÍRB viðurkenningar.
Sunneva Dögg Friðriksdóttir hlaut Ólafsbikarinn og fékk jafnframt kr. 10.000 í styrk úr minningarsjóðnum. Það var ekkja Óla Þórs, Svanhvít Jóhannsdóttir sem afhenti bikarinn.
Í meyjaflokki hlaut Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir afreksverðlaunin fyrir 200 metra fjórsund, 400 metra skriðsund og 200 skriðsund samtals 1385 stig.
Í stúlknaflokki hlaut Íris Ósk Hilmarsdóttir afreksverðlaunin fyrir 200 metra baksund og 400 metra skriðsund samtals 1330 stig.
Mótið endaði á skemmtilegu 10x50 m skriðsund boðsundi. Reglurnar fyrir þetta sund voru svolítið á reiki og breyttust aðeins yfir helgina en við héldum okkur við upprunalegu regluna að í sveitinni skyldu vera 5 stelpur og 5 strákar og aðeins einn sundmaður mætti vera orðinn eldri en 13 ára. Við ákváðum að láta yngstu sundmennina synda fyrst svo í byrjun var liðið aðeins á eftir hinum og það mátti heyra fólk spyrja hvað ÍRB væri eiginlega að gera?? Einn þjálfarinn sagði þá bíddu bara aðeins og það var alveg rétt eftir smá stund náðum við fram úr og unnum boðsundið. Mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu.
Bestu þakkir til sundmanna fyrir frábæra frammistöðu og prúðmensku. Þjálfurunum Ant, Edda og Steindóri þökkum við fyrir framúrskarandi starf í undirbúningi mótsins. Þeim Ant og Edda þökkum við fyrir alla hina góðu vinnu um helgina og þeirra þátt í að skapa þá frábæru stemningu sem ríkti í hópnum. Guðný fararstjóri fær alveg sérstakar þakkir fyrir að vera svona frábær í því að hafa alla tilbúna í slaginn um helgina og að lokum þökkum við öllum öðrum foreldrum fyrir framlag þeirra bæði í hinum ýmsu störfum á mótinu.
Til hamingju öll!!