Fréttir

ÍRB sigurvegari á AMÍ sjötta árið í röð
Sund | 28. júní 2016

ÍRB sigurvegari á AMÍ sjötta árið í röð

Lið ÍRB sigraði með yfirburðum í stigakeppni liða á AMÍ 2016, sem haldin var á Akranesi 24.-26. júní. ÍRB náði 576 stigum en í öðru sæti varð Sundfélag Hafnarfjarðar með 418 stig. Í þriðja sæti varð svo Sunddeild Breiðablik með 381 stig. Alls tóku 16 félög þátt í mótinu. 

Aldursflokkaverðlaun einstaklinga voru veitt þeim keppendum sem náðu bestum samanlögðum árangri í sínum stigahæstu greinum í samræmi við stigatöflu FINA í flokki pilta og stúlkna, drengja og telpna og meyja og sveina. Í flokki stúlkna með samtals 1379 stig fyrir 400m skriðsund og 100 metra skriðsund, var Sunneva Dögg Friðriksdóttir úr ÍRB Aldursflokkameistari en hún var stigahæsta stúlkan á mótinu. Már Gunnarsson hjá ÍRB hlaut svo sérstakan styrk fyrir sín afrek á mótinu.

Þessi sigur var ekki síður sögulegur, en með þessum sigri varð ÍRB fyrst liða til að vinna titilinn sex sinnum í röð. Farandgripurinn sem keppt er um er frá 1992 og geymir líka fleira sögulegt, en á honum sést að frá 2001 þegar ÍRB samstarfið hófst, þá hefur ÍRB liðið orðið AMÍ meistari ellefu sinnum og aldrei neðar en annað sæti. ÍRB varð fyrst AMÍ meistari á árunum 2004 - 2008 og núna frá 2011 - 2016. Magnaður árangur hjá okkar frábæra sundfólki í gegnum árin. Áfram ÍRB!! 

Úrslit okkar sundmanna má finna hér.