Fréttir

ÍRB sýndi vaxandi styrk á Bikarmóti SSÍ
Sund | 1. desember 2013

ÍRB sýndi vaxandi styrk á Bikarmóti SSÍ

Bikarhelgin var mjög skemmtileg og árangursrík fyrir ÍRB. Sundmenn frá okkur voru samtals 36 og kepptu í þremur liðum, kvennalið og karlalið í 1. deild og b-lið kvenna í 2. deild. Keppnin var hörð og spennandi, staðan breyttist oft og ekki munaði miklu í lokin.

 

 

Stelpurnar í A-liðinu unnu 1. deild og höfðu betur eftir mikla keppni við SH. Á síðasta bikarmóti voru stelpurnar í 2. sæti og í ár voru þær að vinna bikarkeppnina í fyrsta sinn síðan 2008.   

 

 

Strákarnir voru traustir í 2. sætinu og unnu sig upp úr 5. sæti sem þeir enduðu í síðast og færðust nær strákunum í SH sem hafa haldið þessum titli í þó nokkur ár.

 

 

Stelpurnar í B-liðinu voru mjög flottar með fjölmargar bætingar á tímum og unnu verðskuldað 2. deildina þar sem þær kepptu við A-lið úr öðrum liðum t.d. Fjölni og UMSK.

Stefanía Sigurþórsdóttir átti frábært mót og bætti þrjú Íslandsmet í flokki 11-12 ára, allt met sem Eygló Ósk Gústafsdóttir átti. Stefanía bætti metið í 400 skrið og 400 fjór um 2 sek og 800 skrið um 7 sek. Til hamingju Stefanía.

 

Fleiri flott met voru slegin á mótinu t.d. bætti Sunneva Dögg Friðriksdóttir opna ÍRB metið í 800 skrið á tímanum 9:03 og nálgast hún 9 mínútna múrinn hratt, stelpurnar í boðsundinu bættu opna metið í 4x100 fjór en metið átti sveit sem þær Eydís Konráðsdóttir og Íris Edda Heimisdóttir voru hluti af.

 

 

 

Okkar árlega keppni milli kynjanna var háð um helgina en þá keppa strákarnir og stelpurnar um bikar en til þess að vinna hann þarf t.d.  að bæta tímana sína sem mest og vera með frábæran liðsanda en gefin eru stig fyrir ýmislegt í þeim dúr. Bæði strákarnir og stelpurnar lögðu sig vel fram en strákarnir unnu þó að lokum en aðeins með 5 stiga mun.

 

 

Kærar þakkir til allra sem tóku þátt í vinnu og skipulagi um helgina, sérstaklega Magnea og Anna sem voru fararstjórar, þjálfarar og stuðningsfólk sem hefur unnið marga tíma í undirbúningi með sundmönum og svo að sjálfsögðu kærar þakkir líka til sundmannanna sem hafa lagt mikið á sig og æft stíft en það sýnir sig að vinnan borgar sig.

Úrslit 1. deild             Úrslit boðsund 1. deild

Úrslit 2. deild             Úrslit boðsund 2. deild