ÍRB yfirburðasigurvegari á AMÍ 4. árið í röð
Það var sannkölluð sigurgleði og stemming í gærkvöldi þegar fyrirliðar ÍRB þau Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Helena Ósk Ívarsdóttir hófu bikarinn á loft í Íþróttahöllinni á Akureyri að loknu Aldursflokkameistarmót Íslands í sundi. Þar sigraði lið Íþróttabandalags Reykjanesbæjar með yfirburðum en mótið fór fram á Akureyri nú um helgina. Þessi titill er sá fjórði í röð sem liðið vinnur, og er það ótrúlega góður árangur. Liðsmenn ÍRB hófu mótið af miklum krafti á fimmtudeginum, tóku forystu í stigakeppninni og létu hana aldrei af hendi það sem eftir lifði móts. Sundfólkið okkar var að synda sérlega vel, bætti sig í nánast öllum sundum og gaf sig af öllum krafti ásamt miklum baráttuanda, gleði og stemmingu í keppnina. Boðsundsveit ÍRB sem skipuð er 13 - 14 ára telpum setti nýtt aldursflokkamet í 4 x 100 m fjórsundi þegar þær sigruðu með glæsibrag. Sveitina skipuðu Svandís Þóra Sæmundsdóttir, María Halldórsdóttir, Lilja María Stefánsdóttir og Soffía Klemenzdóttir. Bestum árangri einstaklinga náðu þau Soffía Klemenzdóttir, Hermann Bjarki Níelsson og Kristófer Sigurðsson en þau sigruðu öll í fimm af sínum sex einstaklingsgreinum. Í lokhófi mótsins voru einnig stigahæstu einstaklingar í hverjum aldursflokki verðlaunaðir sérstaklega. Þar áttum við tvo fulltrúa. Kristófer Sigurðsson í sveinaflokki og Soffíu Klemenzdóttur í telpnaflokki. Aldursflokkahópur SSÍ skipaður krökkum fæddum 1994 og 1995 síðan tilkynntur og þar áttum við einnig tvo fulltrúa, þau Lilju Ingimarsdóttur og Kristófer Sigurðsson. Frábært mót hjá frábæru liði.
Endanlega stigastaða félaga á AMÍ á Akureyri árið 2007 var þessi:
1. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) 1451 stig,
2. Sundfélagið Ægir 1134 stig
3. Sundfélagið Óðinn 1039 stig
4. Sunddeild KR 687 stig
5. Sundfélag Hafnarfjarðar 664 stig
6. Sundfélag Akranes 650 stig
7. Sunddeild Fjölnis 434 stig
8. Sunddeild Breiðabliks 189 stig
9. Sunddeild Ármanns 188 stig
10. Sundfélagið Vestri 186 stig
11. Afturelding 81 stig
12. Ungmennfélagið Þróttur Vogum 70 stig
13. UMSB 52 stig
14. Sunddeild Stjörnunnar 31 stig
15. Sundfélag ÍBV 19 stig
16. Sundfélagið Húnar Hvammstanga 11 stig
17. Tindastóll 9 stig
18. Íþróttafélagið Völsungur 7 stig
19. Grindavík 3 stig.