Fréttir

Jóna Helena - Lífið í New Mexico
Sund | 10. nóvember 2012

Jóna Helena - Lífið í New Mexico

 

Í maí 2012 tók ég þá stóru ákvörðun að flytja til Bandaríkjanna nánar tiltekið New Mexico. Ég vissi ekki mikið um þetta fylki nema að þar væri mjög þurrt loft og heitt í veðri. Ég hafði verið í viðræðum við nokkra skóla en leist best á New Mexico State University. Skólinn leit mjög vel út og einnig sundliðið, og allar aðstæður litu út fyrir að vera góðar, og svo var mér boðinn góður skólastyrkur. 

Í ágúst  var komið að þessu. Hlutum var pakkað í tösku og ég fluttist af landi brott. Mamma mín ákvað að ferðast með mér og veita mér stuðning í nýju umhverfi (held hún hafi líka verið forvitin að vita hvernig þetta allt liti út). Þegar á áfangastað var komið var rosalega heitt, úff.

Þetta byrjaði allt saman rólega, ég kom mér fyrir inná dorminu (eins og við köllum það hérna úti). Dormið er sem sagt húsið þar sem herbergið mitt er. Æfingar hófust viku fyrir skólann og voru það bara léttar æfingar sem fyrirliðarnir sáu um. Svo hófst skólinn og æfingar með þjálfurunum.


Við erum 22 sundstelpur sem æfum saman, við höfum 50m útilaug til að æfa í sem er reyndar skipt upp í tvær 25 yarda laugar. Við höfum annan endann alveg útaf fyrir okkur, 10 brautir. Sem er alls ekki slæmt, alltaf bara 2 á braut, sem er mjög þægilegt eins og flestir sundmenn vita. Einnig höfum við 6 brauta, 25 yarda innilaug sem við syndum í á morgnanna þegar það er mjög kalt í veðri, já þið lásuð rétt KALT í veðri. Á morgnanna hér í New Mexico er sko alls ekki heitt, hitinn hefur farið niður allt í 5 gráður! Ykkur finnst það kannski ekki kalt en trúið mér það er kalt.

Eins og æfingaplanið er hjá mér núna, þá fer ég á 3 morgunæfingar í viku ásamt 6 dagsæfingum. Ég lyfti þrisvar í viku, þar sem við höfum lyftingaþjálfara, og svo er einnig þrek á bakka tvisvar í viku. Ég syndi oftast í langsundhópnum og syndum við 5-6 km á morgnanna og 7-8 km á dagsæfingum.

Í skólanum eru um 19.000 nemendur. Skólinn gengur vel, ég er á tölvunarfræðibraut og líkar það vel eins og er. Ég er með góðar einkunnir eins og er í öllum fögum og vonandi að það haldist út önnina, sem ég efast ekki um.

Margir velta því fyrir sér hvernig það sé að gera allt á ensku læra, tala og hugsa, mitt álit er það að það er ekkert  mikið öðruvísi. Þú kemst fljótt inn í þetta og ferð að hugsa á ensku eins og ekkert sé. Ég viðurkenni það að fyrstu vikurnar hér var ég voðalega feimin að tala, en það er búið að lagast helling, og ég er orðin mun öruggari með ensku kunnáttu mína.

Í háskólasundi snýst þetta allt saman mjög mikið um liðsheild. Liðið gerir margt skemmtilegt saman. Við förum út að borða á sirka tveggja vikna fresti, svo hittumst við oft allar og gerum einhvað skemmtilegt. Eina helgina hittumst við allar og fórum að skera út grasker, það var mjög skemmtilegt.

Mótin eru þannig uppsett að það eru tveir háskólar sem keppa gegn hvor öðrum, það er samið um hvaða greinar eru syntar á hverju móti fyrir sig og svo er gefin stig fyrir hverja grein. Fyrstu 3 sætin gefa stig. Mótin eru mjög fljót að líða og er alltaf bara einn hluti. Mér fannst frekar fyndið að það voru aðeins um 5 dómarar á fyrsta mótinu mínu samanborið við mótin heima þar sem það er endalaust af dómurum.

Fyrsta mótið sem ég keppti á var gegn skóla sem heitir Air Force, ég synti 200 skrið, 200 bak og 400 fjór, Skólinn minn vann 155-145. Persónulega hefði ég viljað synda hraðar en ég gerði, en eins og þetta er heima, þá erum við í stífum æfingum og erfitt að ná upp miklum hraða. Einnig er svolítið öðruvísi að synda í yarda laug heldur en metra laug. Og tekur það svolítinn tíma að venjast því, ég er farin að þekkja aðeins betur tímana, hvað er góður tími til að synda á og hvað er of hægt og þess háttar. Þetta kemur allt saman með kalda vatninu.

Einnig þurfa allir íþróttamenn í skólanum að skila 15 klukkutímum í sjálfboðavinnu á hverju ári. Einn sunnudag aðstoðuðum við sundstelpurnar í hjólakeppni, þar sem við sátum í eyðimörkinni í 5 klukkutíma, til að hvetja fólk áfram þegar þau hjóluðu fram hjá okkur. Einnig buðum við okkur fram til að taka tímann á sundmóti sem var í lauginni hér. Skemmtilegasta sjálfboðaverkefnið hingað til var þegar við vorum að selja happadrættismiða á byssusýningu. Þar fékk ég að halda á alvöru byssu, frekar spennandi fannst mér.

Margir velta því fyrir sér hvort það sé ekki erfitt að vera svona langt frá fjölskyldu og vinum. Svarið er auðvitað jú, það getur verið mjög erfitt stundum. En þökk sé góðu fjarskiptakerfi eins og skype og facebook, þá verður það mun auðveldara.

Þetta er svona það helsta sem hefur gengið á hjá mér til þessa í þessu skemmtilega ævintýri. Mér líður mjög vel hérna, hef eignast góðar vinkonur og allt er frábært.

 

Svo langar mig einnig að minna á það, að það er öllum velkomið að kíkja í heimsókn til mín, ég býð uppá fría gistingu. Svo er alltaf hægt að hafa samband við mig á Facebook.

Að lokum langar mig að óska öllum sundmönnum og þjálfurum góðs gengis á ÍM25!!!  Sjáumst hress um jólin

Bestu kveðjur,

Jóna Helena 

Verið að skoða sig um í nýju umhverfi

Sólin hátt á lofti í eyðimörkinni, hitinn var mikill þarna!

Sólin hátt á lofti í eyðimörkinni, hitinn var mikill þarna! 

Í september og október er rigningatímabilið hér, þá er voða gaman að fara út að leika í rigningunni

Í september og október er rigningatímabilið hér, þá er voða gaman að fara út að leika í rigningunni 

Flotta graskerið sem ég skar út

Flotta graskerið sem ég skar út

Útilaugin sem ég æfi í

Útilaugin sem ég æfi í!

Liðsmynd eftir fyrstu æfinga vikuna okkar

Liðsmynd eftir fyrstu æfinga vikuna okkar