Kristófer náði lágmarki á HM
Kristófer Sigurðsson náði B-lágmarkinu í 200 m skriðsundi um síðustu helgi fyrir Heimsmeistaramótið í 25 m laug sem fer fram í borginni Doha í Qatar. Kristófer náði lágmarkinu á Bikarmóti SSÍ þegar hann keppti með karlaliði ÍRB í 1. deild en liðið lenti í 2. sæti keppninnar.
Aðeins 7 sundmenn úr ÍRB hafa keppt á Heimsmeistaramóti eða Ólympíuleikum en það eru Erla Dögg Haraldsdóttir, Árni Már Árnason, Örn Arnarson, Íris Edda Heimisdóttir, Jón Oddur Sigurðsson, Eydís Konráðsdóttir og Eðvarð Þór Eðvarðsson.
EM25 verður ekki haldið í ár, en næsta EM25 verður að óbreyttu haldið í Ísrael í desember 2015. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þátttöku Íslands í því móti en í ljósi ástandsins í Ísrael verður ákvörðun um þátttöku tekin í samráði við ÍSÍ og Utanríkisráðuneytið þegar þar að kemur.
Sett voru B-lágmörk fyrir Heimsmeistaramótið. Kristófer var vel innan lágmarksins og mun að sjálfsögðu reyna að ná A lágmarkinu á Íslandsmeistaramótinu í nóvember.
Kristófer hafði fyrr á árinu synt 400 m skriðsund undir B-lágmarkinu, þær Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Íris Ósk Hilmarsdóttir hafa líka synt á síðustu 12 mánuðum undir B-lágmörkum þau þurfa að synda á þessum tímum aftur á Íslandsmeistaramótinu í nóvember til þess að fá sæti. Þröstur Bjarnason og Baldvin Sigmarsson eru báðir innan við 1,5 % frá tímunum.
Gangi ykkur öllum vel!