Fréttir

Kristófer og Sunneva á leið til Doha í Qatar!
Sund | 19. nóvember 2014

Kristófer og Sunneva á leið til Doha í Qatar!

Það er alveg rétt það sem rætt var á fundi sundmanna fyrir ÍM að það er varla hægt að finna betri fyrirmyndir en Kristófer Sigurðsson og Sunnevu Dögg Friðriksdóttur í því hvernig á að undirbúa sig fyrir mót og vera með hugann á réttum stað miðað við hvernig þau voru í undirbúningi sínum fyrir mótið. Það er árangur mikillar vinnu af þeirra hálfu að þau eru fyrstu sundmenn ÍRB til að synda yfir 750 FINA stigum frá því hin frábæru Erla Dögg Haraldsdóttir (804), Árni Már Árnason (817), Örn Arnarson (837), Sindri Þór Jakobsson (772), Jón Oddur Siurðsson (775) og Eðvarð Þór Eðvarðsson (757) syntu sín stigahæstu sund, stig miðuð við FINA stig 2014. Þessir tveir sundmenn eru alltaf jákvæðir, mjög einbeittir og leggja á sig mikla vinnu bæði líkamlega og andlega, í lauginni, þreki og í jóga. Þau leggja líka mikið upp úr hollri og góðri næringu, hugsa vel um líkamann og undirbúa hugann líka fyrir mót. 

Á uppskeruhátíð Sundsambands Íslands fékk Kristófer Sigurðsson þann heiður að vera valinn karlkyns sundmaður Íslandsmeistaramótsins í 25 m laug fyrir árangur sinn í 400 m skriðsundi á fyrsta kvöldi úrslita á mótinu. Hann var Íslandsmeistari í þessari grein eins og í 100 og 200 m skriðsundi. Hann mun keppa á Heimsmeistaramótinu í Doha í Qatar í byrjun desember í þessum þremur greinum. Fyrir 400 m skriðsundið fékk hann 773 FINA stig, bætti ÍRB met frá 2009 um 3 sekúndur en metið átti Sindri Þór Jakobsson og er hann nú aðeins 3 sekúndum frá Íslandsmetinu sem Örn Arnarson á. Kristófer varð í þriðja sæti af íslenskum keppendum mótsins í 1500 skrið, 50 bringu og 400 fjór og bætti ÍRB metið í 200 skrið á tímanum 1:49.24.

Sunneva Dögg Friðriksdóttir synti mjög vel í 400 skrið og bætti opna ÍRB metið og stúlknametið um næstum 4 sek á tímanum 4:17.64 og náði með þessum tíma lágmarki á Heimsmeistaramótið. Hún var með 754 FINA stig og er Sunneva sem er aðeins 15 ára 4 sekúndum frá opna Íslandsmetinu og 2 sek frá Íslansmetinu í stúlknaflokki sem Inga Elín Cryer og Eygló Ósk Gústafsdóttir eiga. Með þessu sundi varð hún í öðru sæti af íslenskum sundmönnum. Sunneva er of ung til þess að keppa á heimsmeistaramótinu en mun fara í æfingaferð á vegum FINA sem haldin er samhliða HM fyrir unga og efnilega sundmenn. Þar gefst henni tækifæri til kynnast andrúmsloftinu á stórmóti eins og HM og hitta frábært sundfólk víðsvegar að úr heiminum. Sunneva var Íslandsmeistari í 200 m skriðsundi á tíma sem bætti gamalt met frá 1998 sem Eydís Konráðsdóttir átti en Sunneva synti á 2:03.13. Hún bætti einnig ÍRB metið í 800 og 1500 m skriðsundi og ÍRB aldursflokkametið  í 100 skrið. Sunneva varð líka Íslandsmeistari í 1500 skrið og varð önnur íslenskra sundmanna í 800 skrið og þriðja í 100 skrið.

Við óskum þeim góðs gengis í ævintýrinu sem framundan er og óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.