Lágmörk, met og góður árangur.
Stór hópur sundfólks úr ÍRB keppti á sundmóti Ármanns um sl. helgi. Þar átti okkar fólk góðu gengi að fanga og vann til gríðarlega margra verðlauna. Í sumum greinum áttum við oft 1. -3. sæti. Margir voru að bæta tímana sína eða synda alveg við sína bestu tíma, ásamt því að innanfélagsmet féllu og nokkrir náðu landsliðslágmörkum. Eva Margrét Falsdóttir setti innanfélagsmet í 100m fjórsundi og 200m skriðsundi í flokki hnáta 10 ára og yngri. Þær Diljá Ívarsdóttir, Kolbrún Pálmadóttir, Karen Mist Arngeirsdóttir, Stefanía Sigurþórsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Sunneva Dögg Friðriksdóttir náðu allar lágmörkum í Tokyo 2020 hóp SSÍ. Einnig náðu þær þrjár síðastnefndu, Stefanía, Eydís og Sunneva lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem fram fer í Bergen í desember. Jafnframt náðu 11 sundmenn lágmörkum í keppnisverkefni ÍRB á erlendri grundu. Geysi flottur árangur hjá sundmönnum ÍRB á fyrsta móti vetrarins.