Ólöf Edda með brons í 400 fjór á NMU annað árið í röð!
Ólöf synti á sínum besta tíma á þessu sundári og náði aftur undir 5 mínútum í 400m fjórsundi. Frábær árangur hjá henni og sýnir vel hve hart hún hefur lagt að sér þessa síðustu mánuði. Tíminn hennar núna var 11 sekúndum hraðari en hún synti á ÍM25 í nóvember. Brons annað árið í röð og frábær árangur hjá þessari duglegu stúlku. Til hamingju Ólöf.
Berglind synti líka mjög vel í kvöld og rústaði sínum bestu tímum bæði í 50m bringusundi og í 200m skriðsundi þegar hún tók þátt í boðsundinu. Frábært hjá henni. Í 50m bringusundi synti hún á 35,47 sek og var næstum því 1,5 sekúndu betri en í síðasta mánuði – það er ótrúlega gott. Í 200m skriðsundi synti hún á 2:11,25 sem er þremur sekúndum hraðar en það sem hún átti og tveimur sekúndum hraðar en hún náði í boðsundinu á Aðventumótinu. Berglind lenti í 5. sæti í 50m bringu og liðið lenti einnig í 5. sæti.
Birta María var líka frábær í 4x200m skriðsundinu með liðinu og synti á sínum besta tíma 2:10,61. það er alltaf gaman þegar ÍRB sundmenn bæta íslenska liðið svona mikið. Vel gert Birta og taktu þetta á morgun í 400m skriðsundinu.
Íris synti á sínum öðrum besta tíma og endaði sjötta aðeins 0,23 frá nýja ÍRB telpnametinu sínu frá því í morgun. Aðalgrein Írisar er á morgun, 200m baksund og við óskum henni góðs gengis.
Erla synti á 1:06,57 úrslitum í dag og endaði áttunda. Því miður var þetta ekki eins gott sund og í morgun þar sem hún synti á besta tíma sínum 1:05,88. Erla syndir á morgun í greininni sem hún náði lágmörkunum í 200m flug. Við fylgjumst spennt með.
Piltarniar syntu 4x200m skriðsund og þar var Kristófer að synda með Aroni í SH, Daníel og Kristni frá Fjölni. Þeir syntu 24 sekúndum hraðar en íslenska aldursflokkametið er sem er í eigu félags. Það verður gaman að sjá hvort að SSÍ kemur til með að halda utan um landsliðsmet eins og félagsmet. Hvað sem verður er þetta lið sem samanstendur af frábærum piltum. Þeir luku keppni í 5. sæti. Kristófer synti aðeins hægar núna sína 200m en í gær.
Í fyrramálið verða allir sundmennirnir að keppa og flestir eru að fara að synda sín sterkustu sund. Við óskum þeim öllum góðs gengis og vonum að krakkarnir okkar sofi vel í nótt!