Fréttir

Sund | 8. júlí 2009

Sindri Þór með góða bætingu

Sindri Þór Jakobsson hóf keppni í  morgun með glæstum árangri, (sjá frétt af heimasíðu ) SSÍ. Þessi tími Sindra er næst hraðasti tími hjá ÍRB sundmanni. Aðeins 25,02 Arnar Arnarsonar er betra, en sá tími var á þeim tíma íslandsmetið í greininni. Laglegt sund hjá Sindra sem lofar góðu fyrir framhaldið.

EMU í sundi er hafið ( Tekið af heimasíðu SSÍ )

Evrópumeistarmót unglinga (EMU) í sundi er hafið en í dag er fyrsti keppnisdagur af 5.

Yfir 800 sundmenn og -konur frá 45 löndum taka þátt. Íslenska sundfólkið stóð sig vel í morgun. Sindri Þór Jakobsson byrjaði daginn á því að bæta sig um 1,5 sekúndur í 50m flugsundi, sem er mjög sterkt. Hann var á tímanum 25,13 sem gaf honum 20. sæti af 63 keppendum. Árangurinn lofar góðu fyrir 200m flugsund sem er á morgun en 200 metra flugsund er aðalkeppnisgrein Sindra Þórs.

 

Inga Elín Cryer var nálægt Íslandsmeti sínu í 400m fjórsundi en hún synti á 5mín og 05,35sek. Endanleg úrslit liggja ekki fyrir á þessari stundu þannig að ekki er hægt að segja til um sæti.

 

Bryndís Rún Hansen synti næst 100m skriðsund á 59.72 sek sem er bæting fyrir hana um tæpa sekúndu. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir synti líka 100m skriðsund og bætti sig um 0,01 sek með tímanum 58,63. Sæti þeirra liggur ekki fyrir sem stendur en bæting stúlknanna lofar góðu fyrir næstu daga.

 

Heimasíða mótsins er http://www.prague2009.cz/ og þar er hægt að fylgjast með uppröðun í riðla og úrslitum í hverri grein. 

 

Við sendum kveðjur heim og biðjum að heilsa.

 

EMU hópurinn