Fréttir

Sund | 17. nóvember 2007

Söguleg sigurganga á IM-25 í sundi

Sundmenn úr röðum ÍRB héldu sigurgöngu sinni ótrauðir áfram á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug.  Það er óhætt að segja að nafn félagsins og einstakra sundmanna hafi verið skráð í sögubækurnar í dag.  Dagurinn hófst með glæsilegum sigri og telpnameti hjá Soffíu Klemenzdóttur í 400 metra fjórsundi, Soffia sigraði greinina með yfirburðum.  Því næst skráði Erla Dögg Haraldsdóttir nafn sitt í sögubækurnar með því vera fyrst íslenskra sundkvenna til að synda 100 metra bringusund undir 1 mínútu og 10 sekúndum, lokatími 1:09,63 íslandsmet og hreint stórkostleg frammistaða.  Veislan hélt áfram í næstu grein þegar að Árni Már Árnason sigraði með glæsibrag í 100 metra bringusundi.  Í þessu sundi áttum við alla verðlaunahafana því Guðni Emilsson hlaut silfurverðlaun og Gunnar Örn Arnarson náði í bronsverðlaunin. Eftir einungis 10 mínútna hvíld stakk Erla Dögg sér aftur til sunds, núna í 50 metra flugsundi og sigraði sundið með þó nokkrum mun.  Erla sýndi þarna og sannaði  hvers kyns ,,dúndur" formi hún er í þessa dagana.  Þá var röðin komin að Birki Má Jónssyni og hans aðalgrein, 200 metra skriðsundi.  Birkir Már sýndi það og sannaði að hann er ,,kóngurinn" í þessari vegalengd meðal íslenskra sundmanna þegar að hann sigraði með talsverðum yfirburðum.  Trompinu var síðan spilað út í boðsundum þegar karla- og kvennasveitir ÍRB sigruðu með glæstum hætti 4*50 metra fjórsund.  Karlasveitin bætti sitt eigið Íslandsmet um rúmlega sekúndu, frábær árangur.  Í sama sundi setti piltasveitin piltamet og hafnaði þar að auki í þriðja sæti.  Í undanrásum í morgun gerði stúlknasveit ÍRB sér lítið fyrir og stórbættu stúlknamet sameiginlega sveit Reykjavíkurliða frá árinu 2005.  Afrakstur dagsins er fjölmörg persónuleg met og innanfélagsmet, 7 Íslandsmeistaratitlar, 3 silfurverðlaun, 6 bronsverðlaun ásamt 5 íslands- og unglingametum.  Samtals hafa liðsmenn unnið til 13 íslandsmeistaratitla,hlotið 9 silfur- og 10 bronsverðlaun.  Fylgist með, baráttan heldur áfram á morgun.