Sund /Íslandsmet og fjórir titlar á IM 50
Flottur árangur náðist á fyrsta degi á innanhússmeistarmótinu í 50m laug, margar bætingar og verðlaun, fjórir titlar, eitt íslandsmet, eitt aldursflokkamet, og eitt lágmark í unglingalandslið SSÍ. Alls hafa sundmenn okkar unnið fjóra titla, þar af þrjá í einstaklingsgreinum og einn í boðsundi á frábæru íslandsmeti. Soffía Klemenzdóttir bætti 12 ára gamalt met í flokki telpna 13 - 14 ára í 400m fjórsundi þegar hún kom önnur í mark á frábærum tíma, Jóna Helena Bjarnadóttir náði einnig stórum áfanga í sama sundi þegar hún kom þriðja í mark og náði um leið lágmörkum fyrir unglingalandslið SSÍ. Alls hafa nú fjórir sundmenn frá ÍRB náð lágmörkum fyrir næsta unglingaverkefni SSÍ sem fram fer í apríl nk. og væntanlega munu fleiri bætast í hópinn nú um helgina. Þeir einstaklingar sem urðu íslandsmeistarar í dag eru: Birkir Már Jónsson í 100m skriðsundi, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson í 50m baksundi og Hilmar Pétur Sigurðsson í 1500m skriðsundi, en þetta er fimmta árið í röð sem Hilmar vinnur titil í þessari grein.
Hápunkturinn dagsins var samt sem áður íslandsmet hjá okkar mönnum í 4 x 100 fjórsund karla þar sem að tvær sveitir syntu undir gamla Íslandsmetinu. Karlasveit ÍRB setti nýtt Íslandsmet á tímanum 03:59.77 en fast á hæla þeirra kom sveit Ægis á tímanum 03:59.78. Gamla metið átti karlasveit Ægis, 04:00.70 frá 2006, en þetta er eina metið sem fallið hefur á mótinu til þessa. Sveit ÍRB skipuðu Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Guðni Emilsson, Birkir Már Jónsson og Hjalti Rúnar Oddson.