Fréttir

Sundið borgar fyrir framtíðina
Sund | 8. desember 2014

Sundið borgar fyrir framtíðina

Erla Sigurjónsdóttir, Íslandsmeistari í 100 m flugsundi 2014, segir frá umsóknarferlinu í háskóla í Bandaríkjunum:

Fyrir ári síðan fékk ég tölvupóst sem breytti lífi mínu. Þessi tölvupóstur var frá konu sem heitir Jessica og hún vinnur við það að hjálpa íþróttafólki að komast á styrki í skólum í Bandaríkjunum. Á þessu tímabili var ég að íhuga það að hætta að æfa sund og fannst ég ekki hafa neitt almennilegt til að stefna að. Ég get alveg sagt að ég var komin með leið á þessu enda hef ég verið að æfa sund  síðan í fyrsta bekk.

Jessica kveikti áhuga minn á því að reyna að komast á sundstyrk í nám í Bandaríkjunum. Þetta hefur verið draumur minn í mörg ár þar sem ég man eftir að hafa horft á eftir fullt af sundmönnum fara út í þetta ævintýri. Ég bjóst samt einhvernveginn aldrei við því að ég myndi geta það líka.

Ég mun útskrifast núna um jólin frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og mun svo fara út í haust. Þetta hefur verið ansi langt ferli sem er ekki nærri því búið. Það er samt algjörlega þess virði!

Það eru ýmis próf sem þarf að taka og einnig þarf að tala við þjálfara úti en á sama tíma þarf að passa einkunnir hér heima og að maður standi sig vel á mótum.  Ég get ekki lýst því hvað það er mikilvægt að hafa góðar einkunnir í þessu ferli. Það eru margir útlendingar að keppast um takmarkað pláss á liðum og flestir eru með svipaða eða jafnvel betri tíma en maður sjálfur. Þá eru það einkunnirnar sem gera gæfumuninn ef valið stendur á milli sundmanna sem allir hafa svipaða tíma.

Erla Sigurjónsdóttir, Íslandsmeistari í 100 m flugsundi 2014, segir frá usóknarferlinu í háskóla í Bandaríkjunum:

Ég stefni nú að því að fara í University of Chicago sem er í 11. sæti yfir bestu háskóla í heiminum samkvæmt Times Higher Education. Ef það gengur ekki upp er ég komin með varaskóla sem er tilbúinn að veita mér fullann styrk ásamt fæði og uppihaldi.

Það sem ég hef að segja fyrir ykkur sem hafið áhuga á að nýta þetta tækifæri er að ekki leyfa því að sleppa úr greipum ykkar. Ef ég á að segja satt eru flestir sundmennirnir sem ég æfi með í dag mun betri heldur en ég var á þeirra aldri. Ég blómstraði seint og árangurinn minn hefur aðeins komið í ljós síðustu tvö ár.

Þótt árangurinn sé ekkert spes í dag þýðir það ekki að morgundagurinn geti ekki orðið betri. Með vinnu og markmiðssetningu er ekkert sem stendur í vegi ykkar.

Erla Sigurjónsdóttir