Sundmenn unnu alls 59 verðlaun í Þýskalandi
Sundmennirnir okkar voru hreint út sagt landi og þjóð til sóma á alþjóðlegu sundmóti í Þýskalandi nú um helgina. Alls unnu sundmennirnir 19 til 59 verðlauna á mótinu og liðið endaði í öðru sæti í liðakeppni mótsins, þar sem þau unnu verðlaunafé að upphæð 15.000- kr. Gott gengi hafði verið hjá liðinu á fyrsta degi mótsins og var það í 6. sæti keppninnar með 20 verðlaun. Á seinni deginum fór okkar fólk síðan hamförum og endaði með 59 verðlaun og 2. sætið. Mót þetta heitirWiest Autohauser Cup og fór fram í Darmstadt en alls tóku 37 lið þátt í mótinu. Okkar fólk vann alls 26 gull, 18 silfur og 15 bronsverðlaun sem er hreint ótrúlegt. Keppt var til verðlauna og stiga í árgöngum og fullorðinsflokki. Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu afreks mótsins í karla og kvennaflokki. Í kvennaflokknum þá var Erla Dögg Haraldsdóttir með stigahæsta afrek kvenna á mótinu fyrir stórgott 100m bringusund. Margar stórkostlegar bætingar litu dagsins ljós og í sumum lengri greinunum voru dæmi um það að sundmennirnir okkar bættu sig um 10 - 14 sekúndur. Greinilegt er því að bætt æfingaaðstaða okkar duglega sundfólks er að skila enn betri árangri í 50 metra lauginni. Þeir sem unnu til flestra verðlauna voru: Erla Dögg Haraldsdóttir 6 gull og 1 silfur, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson 3 gull, 3 silfur og 2 brons, Soffía Klemenzdóttir 3 gull og 3 brons, Helena Ósk Ívarsdóttir 3 gull og 1 silfur og Birkir Már Jónsson 1 gull, 3 silfur og 1 brons.Glæsilegur árangur hjá okkar fólki !