Fréttir

Sundrússíbaninn-Mikilvæg skilaboð
Sund | 23. nóvember 2012

Sundrússíbaninn-Mikilvæg skilaboð

 

Kæru félagar. Þó svo að rússíbanar séu skemmtilegir í tívolígörðum er rússíbanasund ekki eins sniðugt.

Sundíþróttin byggir á stöðugleik. Þó það geti verið leiðinlegt að hlaupa maraþon á litlum hlaupavelli eru það þegar upp er staðið þeir sundmenn sem láta sig hafa það sem eru verðlaunaðir með góðum árangri. Góður árangur getur svo leitt til vals í landslið eða jafnvel skólastyrk í háskóla.

Alveg eins og í keppnissundi þar sem það skiptir máli að nýta orku líkamans á sem hagkvæmastan hátt til þess að ná sem bestum tíma skiptir líka máli að vera stöðugur á fleiri sviðum.

Það er afar mikilvægt að hafa viðhorf og leggja sig fram af stöðugleika, til dæmis varðandi mætingar. Algengur misskilningur er að það skipti eingöngu máli að æfa vel og mæta vel þegar það styttist í mót og um leið og mótið er búið megi taka sér pásu.


Í rússíbananum er þetta er niðursveiflan eftir að hafa náð á upp á topp og getur verið mjög skemmandi fyrir framför sundmanna. Æfingarnar eftir stór mót eru skipulagðar af þjálfaranum þannig að þær eru auðveldari bæði líkamlega og andlega en einnig með það í huga að viðhalda þeim framförum sem hafa náðst til þess að hægt sé að halda áfram og koma sundmanninum enn lengra.  Þetta er gert til þess að ekki þurfi að byrja aftur frá sama stað og áður heldur ná upp á næsta stig.

Nú eru aðeins 10 dagar í jólamót, 12 dagar í Aðventumót, 22 dagar í NMU og 29 dagar í bikarmótið svo það er alveg nóg til þess að æfa fyrir. Það er að sjálfsögðu ætlast til árangurs á þessum mótum og það er ekki hluti af planinu að detta úr formi og sleppa því að mæta á æfingar.

Munið að það eru á endanum þeir sem eru viljugir að mæta á æfingar þegar keppinautar þeirra nenna ekki sem sjá mestu framfarirnar til lengri tíma litið. Í sundi er tímabilið allt árið.

Þeir sem eiga krakka í Keppnishópi og Landsliðshópi geta séð mætingarmarkmið hverrar viku fyrir allt árið í vikuáætlun sem er á hópasíðunum á heimasíðum félaganna.

Mætir þitt barn á þann fjölda æfinga sem gefinn er upp??? Hafið í huga að fjöldi æfinga breytist viku til viku til dæmis eftir því hve langt er í mót. Því þarf að skoða áætlunina í hverri viku til þess að vita fjölda æfinga og til þess að sjá hvaða æfingar eru í boði. Fjöldi æfinga í Keppnishópi miðast við bláa mætingu en gula í Landsliðshópi.
 

Ekki vera rússíbani. Sýndu stöðugleika í mætingu og viðhorfi en líka jákvæðni og vinnusemi bæði líkamlega og andlega. Náðu þeim markmiðum sem þú hefur sett þér fyrir æfingar og ef þú gerir það stöðugt í langan tíma muntu virkilega sjá árangur.

Gangi ykkur vel!