Fréttir

Sund | 29. júní 2008

Sundsambandið tilkynnir 7 keppendur á ÓL

Sundsamband Íslands hefur sent Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands tillögu um sjö sundmenn sem keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Peking. Jafnframt leggur SSÍ til að tveir þjálfarar fylgi liðinu, Jack Pellegrin og Ólafur Þ. Gunnlaugsson.

Samkvæmt tillögu SSÍ verða keppendur Íslands í Peking eftirtaldir:

Árni Már Árnason í 50 m skriðsundi.
Erla Dögg Haraldsdóttir í 100 m bringusundi og 200 m fjórsundi.
Hjörtur Már Reynisson í 100 m flugsundi.
Jakob Jóhann Sveinsson í 100 m bringusundi og 200 m bringusundi.
Ragnheiður Ragnarsdóttir í 50 m skriðsundi og 100 m skriðsundi.
Sigrún Brá Sverrisdóttir í 200 m skriðsundi.
Örn Arnarson í 100 m skriðsundi og 100 m baksundi.

Erla Dögg ákvað að keppa ekki í 200 m bringusundi í Peking, enda þótt hún hefði náð lágmarkinu í þeirri grein.

Hrafnhildur Lúthersdóttir náði lágmarki í 100 m bringusundi en Erla Dögg á betri tíma og mun því keppa í þeirri grein. Hópurinn getur enn stækkað því frestur til að ná lágmörkum er til 15. júlí.