Torfi í SPEEDO er látinn
Fyrrverandi formaður SSÍ Torfi B. Tómasson lést á Landspítalanum 6. mars síðastliðinn.Torfi var fæddur í Reykjavík 20. maí 1935 og var því á 72 aldursári er hann lést. Torfi var formaður SSÍ á árunum 1971 – 1976, en sat í stjórn sambandsins frá árinu 1966 og gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sundhreyfinguna bæði fyrr og síðar. Hann var meðal annars formaður Sundfélagsins Ægis 1960 - 1967 og var einn af heiðursfélögum þess. Torfi var mikill sundáhugamaður og þjálfaði lið Ægis og landslið Íslands í sundi.
Torfi var mikill félagsmálamaður og meðal annarra starfa hans fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi má nefna að hann sat í Ólympíunefnd Íslands, í framkvæmdastjórn Ólympíunefndar. Hann fór sem flokksstjóri á Ólympíuleika 1972 og 1976 og hann var formaður aðalstjórnar Breiðabliks á áttunda áratugnum.
Torfi var okkur í sundhreyfingunni líka kunnur sem umboðsmaður SPEEDO á Íslandi og hann og fyrirtæki hans hafa verið dyggir stuðningsaðilar SSÍ í mörg ár.
Sunddeildin sendir eftirlifandi eiginkonu Torfa, Önnu Ingvarsdóttur, og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.